Skoða þurfi fleiri flóttaleiðir af Suðurnesjum

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir að skoða þurfi fleiri flóttaleiðir af Suðurnesjum. Suðurstrandarvegur gæti farið undir hraun á næstu vikum.

Búist er við að hraunrennsli nái niður á Suðustrandarveg í gegnum Nátthaga á næstu vikum. Í lok síðasta mánaðar lauk framkvæmdum við varnarmannvirki við Nátthaga sem á að seinka því að hraun fari yfir veginn hins vegar er talið útilokað að hægt verði að koma í veg fyrir að það gerist síðar meir.

„Við höfum verið að skoða alls konar útfærslur eða möguleika á að bregðast við. Það er mat almannavarna að við munum ekki ráða við gos sem hugsanlega mun taka einhvern óendanlegan tíma. Vegna þess að þetta var á heppilegum stað þar myndi þá taka í sundur Suðurstrandarveginn á meðan á því stæði. En þetta væri að því leytinu heppilegt að það er stutt út í sjó og væri hægt að losna við mikið hraun þangað og það myndi þá ekki valda tjóni á öðrum stöðum á meðan,“ segir Sigurður Ingi.

Hann segir að skoða þurfi fleiri flóttaleiðir fyrir íbúa á Suðurnesjum.

„Það er þá verkefni sem þarf þá að fara að skoða. Sérstaklega með tilliti til Suðurnesjanna og kannski ekki síst Grindavíkur. Að hafa fleiri flóttaleiðir. Svo getum við auðvitað vonast eftir því að eldgosið hætti einn daginn og það verði ekki þessi atburður en við erum undirbúin,“ segir Sigurður. 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV