Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Réttarkerfið vanmáttugt en hefur þó batnað

07.07.2021 - 09:12
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Það sem einkum einkennir aðra bylgju MeToo-byltingarinnar er það að konur sem hafa orðið fyrir kynferðisbroti eru að koma fram og nefna gerendur, nokkuð sem ekki hefur sést áður.

Þetta segir Margrét Valdimarsdóttir, doktor í afbrotafræði, en hún var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun.

Tveir íslenskir tónlistarmenn, Auðunn Lúthersson og Ingólfur Þórarinsson, hafa á síðustu vikum þurft að svara fyrir ásakanir á hendur þeim um kynferðisbrot og hafa þeir verið afbókaðir vegna málsins.

Sumir hafa lýst yfir áhyggjum af þróuninni og því sem nefnt hefur verið dómstóll götunnar. Spurð hvort hún telji þróunina hættulega, segir Margrét hana aðallega hættulega fyrir gerendur ofbeldis, sem hafi áður skákað í skjóli þess að konur þyrðu ekki að stíga fram af skömm.

Margrét segist almennt eiga erfitt með nafnlausar ásakanir á internetinu, enda sé auðvelt að misnota þær. Þótt hún þekki ekki dæmi um slíkt á Íslandi séu dæmi um slíkt erlendis frá.

Vert sé þó að hafa í huga að í fyrrnefndum tilvikum sé ekki um nafnlausar ásaknir að ræða. Þótt tuttugu nafnlausum ásökunum um meint ofbeldi og áreitni Ingólfs hafi verið dreift í myndbandi á samfélagsmiðlinum TikTok sé það ekki gert í tómarúmi. Margar konur hafa stigið fram á Twitter og tjáð sig undir nafni.

Hlutir hafi breyst til betri vegar

Margrét var spurð út í vangetu réttarkerfisins til að takast á við kynferðisbrotamál.

Aðeins brotabrot þeirra sem verða fyrir kynferðisofbeldi kæra til lögreglu, og er hlutfallið mun lægra en í öðrum brotaflokkum. Almennt væru um 30-40% ofbeldisbrota tilkynnt til lögreglu, en talið að um 5-10% kynferðisbrota væru tilkynnt.

Margrét sagði þó að margt hefði þróast til betri vegar á liðnum árum. Sakfellingarhlutfall kynferðisbrotamála hefði hækkað og dómar lengst auk þess sem verklag lögreglu hefði batnað.