Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Rauða dreglinum velt fram á ný í Cannes

epa09326897 Jury President Spike Lee arrives for the screening of 'Annette' and the Opening Ceremony of the 74th annual Cannes Film Festival, in Cannes, France, 06 July 2021. Presented in competition, the movie opens the festival which runs from 06 to 17 July.  EPA-EFE/CAROLINE BLUMBERG
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Rauða dreglinum velt fram á ný í Cannes

07.07.2021 - 14:52

Höfundar

Stærsta og virtasta kvikmyndahátíð heims fer nú fram í Cannes í Frakklandi eftir meira en tveggja ára hlé. Vonir eru bundnar við að hátíðin gefi fyrirheit um bjartari tíma í kvikmyndabransanum eftir þrengingar í heimsfaraldri.

Kvikmyndahátíðin í Cannes var blásin af 2020 vegna heimsfaraldursins en stjörnurnar fá nú að spóka sig um og kynna kvikmyndir sínar á ný þar sem tekið er að slakna á kverkataki COVID-19 á heimsbyggðinni. Hátíðin fer yfirleitt fram í maí en henni var seinkað um tvo mánuði í samræmi við rýmkanir á sóttvarnareglum í Frakklandi.

Formaður dómnefndar í ár er bandaríski leikstjórinn Spike Lee og hefur hann sett svip sinn á hátíðina. Í 74 ára sögu hennar er þetta í fyrsta sinn sem svört manneskja fer fyrir dómnefndinni.

epa09326887 Jury members (L-R), Kang-Ho Song, Tahar Rahim, Mylene Farmer, Maggie Gyllenhaal, Jury President Spike Lee, Melanie Laurent, Jessica Hausner, Kleber Mendonca Filho, and Mati Diop arrive for the screening of 'Annette' and the Opening Ceremony of the 74th annual Cannes Film Festival, in Cannes, France, 06 July 2021. Presented in competition, the movie opens the festival which runs from 06 to 17 July.  EPA-EFE/CAROLINE BLUMBERG
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Dómnefnd kvikmyndahátíðarinnar í Cannes er skipuð þeim Kang-Ho Song, Tahar Rahim, Mylene Farmer, Maggie Gyllenhaal, Spike Lee, sem er formaður, Melanie Laurent, Jessica Hausner, Kleber Mendonca Filho og Mati Diop.

Lee frumsýndi kvikmyndina Do the Right Thing í Cannes árið 1989 og hefur hann vakið athygli á því hve lítið hefur breyst í kynþáttamálum í Bandaríkjunum síðan þá. „Eftir meira en 30 ár hefði maður ætlað, og vonað, að hætt væri að veiða svart fólk eins og dýr,“ sagði hann í viðtali við opnun hátíðarinnar.

Standandi lófaklapp í fimm mínútur

Tuttugu og fjórar kvikmyndir taka þátt í aðalkeppninni í ár, nokkrum færri en vant er. Má þar nefna rokkóperuna Annette, með Adam Driver og Marion Cotillard í aðalhlutverkum. Hún var opnunarmynd hátíðarinnar og fékk standandi lófaklapp í yfir 5 mínútur að sýningu lokinni. Driver þótti nóg um og nýtti tímann til að kveikja sér í sígarettu.

Einnig má nefna kvikmynd Pauls Verhoevens, Benedetta, sem er hans fyrsta síðan hann sendi frá sér Elle með Isabelle Huppert í aðalhlutverki fyrir fimm árum, og kvikmynd Miu Hansen-Love, Bergman Island með Tim Roth í aðalhlutverki. Leikstjórinn Wes Anderson frumsýnir þar einnig nýja mynd.

Íslenskt kvikmyndagerðarfólk á hátíðinni

Fjöldi annarra kvikmynda og stuttmynda frá öllum heimshornum eru einnig sýndar á hátíðinni og eru þónokkrar þar sem Íslendingar koma við sögu. Þar ber helst að nefna kvikmynd Valdimars Jóhannssonar, Dýrið eða Lamb, sem frumsýnd verður 13. júlí. Tekur hún þátt í Un Certain Regard-keppni hátíðarinnar.

Með aðalhlutverk í myndinni fara Noomi Rapace og Hilmir Snær Guðnason. Þau leika hjón sem búa í fögrum en afskekktum dal. Þegar dularfull vera fæðist á bóndabænum ákveða þau að halda henni og ala upp sem sitt eigið afkvæmi. Vonin um nýja fjölskyldu færir þeim mikla hamingju um stund, hamingju sem verður þeim síðar að tortímingu. Rithöfundurinn Sjón skrifar handritið með Valdimari Jóhannssyni.

Þrjár aðrar myndir þar sem Íslendingar koma að eru einnig hluti af aðaldagskránni. Brasilísk-íslenska stuttmyndin Ágústhiminn (Céu De Agosto) keppir í stuttmyndahluta hátíðarinnar, danska stuttmyndin Frjálsir menn (Frie mænd), sem er útskriftarmynd Óskars Kristins Vignissonar frá Danska kvikmyndaskólanum, keppir í Cinéfondation-flokknum og kvikmyndin Flag Day eftir Sean Penn er í aðalkeppni hátíðarinnar, en Valdís Óskarsdóttir klippti þá mynd.  

Kvikmyndahátíðin í Cannes stendur yfir frá 6. til 17. júlí.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Konur í meirihluta í Cannes - Spike Lee forseti

Kvikmyndir

Kvikmynd Valdimars Jóhannssonar á aðaldagskrá í Cannes

Kvikmyndir

Merkileg mynd þó tónninn flökti um víðan völl

Kvikmyndir

Ingvar E. Sigurðsson verðlaunaður á Cannes