Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Innviðir ekki í hættu vegna hugsanlegrar sprengivirkni

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Lítil virkni hefur verið í eldgosinu í Geldingadölum frá því á mánudag. Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, segir tvær mögulegar skýringar á þessu.

„Það eru hugsanlega tvær sviðsmyndir. Önnur er að gosið sé að haga sér eins og það hefur verið að haga sér frá upphafi. Þannig að virknin í gígunum virðist vera alveg óháð því sem er að gerast í hrauninu, Það eru breytingar í virkni í gígnum en hraunflæðið er nokkuð stöðugt í innri rásinni, þar sem við sjáum ekki hraunið. Hinn möguleikinn er sá að það hafi dregið verulega úr aðfærslu kviku í gegnum gosrásina sem myndi þá skýra af hverju virknin hefur dottið svona niður, “ segir Þorvaldur. 

Nokkur virkni í gær

Þorvaldur segir nokkra virkni hafa verið í gær en úr henni hafi dregið á ný í gærkvöld. Hann segir jafnframt að hraunið muni renna yfir Suðurstrandarveg og þaðan út í sjó ef hraunmyndun heldur áfram og ef ekki verður ráðist í aðgerðir á svæðinu. Erfitt er að segja til um hve langan tíma það tæki. 

Hugsanleg sprengivirkni hefði engin áhrif á innviði á Reykjanesskaga

„Ef hraunið fer fram í sjó má alltaf búast við töluverðri gufumyndun, þannig að sjórinn gufar upp og hvarfast við bæði gasgufur úr hrauninu og hraunið sjálft. Það geta alltaf myndast skýjabólstrar sem eru óhollir fyrir okkur en þetta er fyrst og fremst staðbundin mengun, “ segir Þorvaldur. 

Þá sé einnig möguleiki á sprengivirkni þegar glóandi kvika rennur í vatn og þá sérstaklega ef vatn lokast undir hrauninu, en þá geti myndast sprengigos að sögn Þorvaldar. Áhrifin frá slíkri virkni yrðu staðbundin, þá gæti orðið gjóskufall við hraunið þar sem það færi út í sjó, en hún hefði engin áhrif á innviði á Reykjanesskaga.