„Hefur sálræn áhrif á fólk þegar fylgið fer niður“

07.07.2021 - 15:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður Samfylkingarinnar segir það vera áhyggjuefni að flokkurinn mælist undir kjörfylgi í skoðanakönnunum. Hann telur hins vegar að stuðningurinn muni aukast þegar flokkurinn kynnir sín helstu stefnumál fyrir komandi kosningar.

Samfylkingin mældist með 9,9 prósenta stuðning í nýjum þjóðarpúlsi Gallup sem var birtur í síðustu viku og hefur ekki mælst með minna fylgi á þessu kjörtímabili. Þá mældist flokkurinn með 10,6 prósent í könnun MMR sem birtist í morgun. Samfylkingin fékk 12,1 prósent atkvæða í síðustu kosningum.

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar segir það vissulega vera áhyggjuefni að flokkurinn sé ekki að mælast með meiri stuðning.

„Jú, jú vissulega. Þetta er auðvitað eins og íslenska veðrið. Það skiptast á skin og skúrir. Við erum nálægt því fylgi sem við fengum í síðustu kosningum og auðvitað ætlum við okkur meira en þetta. Við erum ekki búin að kynna okkar kosningaáherslur fyrir næsta kjörtímabil. Ég er sannfærður um að þá munum við fara að braggast aftur,“ segir Logi.

Hann segir að vissulega hafi þetta áhrif á flokksmenn.

„Fólk hefur auðvitað áhyggjur og þetta hefur svona sálræn áhrif á fólk þegar fylgið fer niður. En við erum samhentur hópur við erum búin að eiga mjög gott samstarf síðustu vikur og mánuði og ég er viss um að það er baráttuandi í hópnum,“ segir Logi.