Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Handteknir á skrifstofu ÚTL og vísað úr landi

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend
Tveir Palestínumenn voru handteknir á skrifstofu Útlendingastofnunar í Bæjarhrauni í Hafnarfirði í gær. Mennirnir voru þangað komnir til að sækja sér bólusetningarvottorð, en þeir voru leiddir út í járnum. Þeir eru í þessum skrifuðu orðum á flugi á leið til Grikklands eftir að hafa verið vísað úr landi.

Sema Erla Serdar, formaður Solaris – hjálparsamtaka fyrir flóttafólk og hælisleitendur, segir að mennirnir hafi verið lokkaðir á skrifstofu Útlendingastofnunar á fölskum forsendum.

Stuttu eftir að þeir komu á svæðið voru minnst fjórir lögreglubílar, sjúkrabíll, slökkviliðsbíll og nokkrir sérsveitarmenn á ómerktum bílum mættir á vettvang.

„Það var augljóst að menn vissu að það væri verið að koma [hælisleitendunum] í aðstæður sem þeir myndu ekki bregðast vel við,“ segir Sema Erla.

Þegar fólki er vísað úr landi er það jafnan gert skriflega og fær fólk 5-7 daga fyrirvara, en Sema Erla segir að það hafi ekki verið gert í þessu tilfelli. „Þetta eru forkastanleg vinnubrögð sem við getum ekki sætt okkur við, hvað þá í garð þeirra sem eiga að heita skjólstæðingar þeirra.“

Tilkynnt til nefndar um eftirlit með lögreglu

Vitni lýsa því að lögregla hafi gengið fram með offorsi, barið þá, hent þeim í gólfið.

Í ofanálag hefðu lögreglumenn hrifsað til sín síma vitnis og eytt út myndum og myndböndum, sem teknar höfðu verið af framferði lögreglu. 

Sema Erla segir í samtali við fréttastofu að samtökin Solaris muni tilkynna meint harðræði lögreglu og inngrip í síma til nefndar um eftirlit með lögreglu. Að sama skapi verði Útlendingastofnun tilkynnt til viðeigandi aðila.

Fréttastofa hefur ekki náð tali af Kristínu Völdunardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, en í samtali við fréttastofu vísar staðgengill hennar, Þorsteinn Gunnarsson, á lögreglu sem framkvæmi brottvísanir. Stofnunin lokki ekki fólk til sín á fölskum forsendum.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV