Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hæstvirtur forsætisráðherra, hvað eru mörg kyn?

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur beint fyrirspurn til forsætisráðherra þar sem spurt er hve mörg kyn mannfólks eru, að mati ráðuneytisins.

Með lögum um kynrænt sjálfræði, sem samþykkt voru á Alþingi árið 2019, er „hlutlaus“ kynskráning heimil í þjóðskrá. Þá er öllum sem halda skrá um kyn fólks skylt að gera ráð fyrir hlutlausri kynskráningu.

Þá er með lögunum gerður greinarmunur á kyni og kyneinkennum, en hið síðarnefnda vísar til líffræðilegra þátta sem tengjast kyni, svo sem kynlitningum, hormónastarfsemi og kynfærum.

15 skriflegar og ein munnleg fyrirspurn

Alþingi kom saman til fundar í gær til að afgreiða mistök sem gerð voru við breytingar á kosningalögum.

Á fundinum lagði Sigmundur Davíð fram fimmtán skriflegar fyrirspurnir til ráðherra, auk þess að bera upp eina munnlega fyrirspurn í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

Meðal þess sem Sigmund fýsir að vita er hver sé kostnaður ríkisins af því að veita þeim sem fá alþjóðlega vernd af mannúðarástæðum sömu þjónustu og kvótaflóttamönnum.

Sigmundur spurði utanríkisráðherra einnig hvort Evrópusambandið hefði á einhvern hátt dregið til baka viðurkenningu á því að umsókn um aðild Íslands að sambandinu hefði verið slitið.

Sigmundur Davíð var forsætisráðherra þegar bréf var sent til Brussel og farið þess á leit að Evrópusambandið hætti að líta á Ísland sem umsóknarríki að sambandinu þar sem stjórnvöld hefðu ekki í hyggju að fá aðild.

Umsóknin, sem samþykkt hafði verið á Alþingi árið 2009, var þó aldrei afturkölluð með formlegum hætti. Á heimasíðu Evrópusambandsins er Ísland ekki á lista yfir ríki í aðildarviðræðum.

Sigmundur spurði samgönguráðherra einnig um áætlaðan kostnað ríkisins af framkvæmdum við borgarlínu og rekstur hennar til framtíðar.

Þá vill Sigmundur vita hver tók þá ákvörðun að kalla ferðaávísun stjórnvalda upp á 5.000 krónur „ferðagjöf“. Spyr hann enn fremur hvort það sé afstaða ráðherra að „ef skattgreiðslum er skilað til skattgreiðenda sé um gjöf að ræða“.

Alls lagði Sigmundur Davíð fram 26 fyrirspurnir á þingvetrinum sem nú er á enda og kom meirihluti þeirra fram í gær.

Er hann þó hálfdrættingur á við spurulasta þingmanninn, Björn Leví Gunnarsson Pírata en eftir hann liggur 51 fyrirspurn í vetur.

Gjaldfrjálsar tíðavörur og skólasókn

Sigmundur var ekki sá eini í fyrirspurnargírnum í gær. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, beindi sjö fyrirspurnum til ráðherra.

Spurði Andrés Ingi menntamálaráðherra hvort markmið um gjaldfrjálsar tíðavörur í skólakerfinu við lok vorannar 2021 hefði náðst, eins og ráðherra hefði talið raunhæft.

Þá spurði hann ráðherra hve mörg börn væru hér á landi á grunnskólaaldri án þess að vitað væri hvort eða hvar þau stunduðu nám.
 

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV