Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Finnar fækka „grænum“ ríkjum með hertum reglum

Mynd með færslu
 Mynd: A. Timonen - YLE
Finnsk stjórnvöld ákváðu í gær að herða skilyrði þau sem lönd þurfa að uppfylla til að flokkast sem græn ríki, en íbúar slíkra ríkja geta ferðast til Finnlands vandræðalaust þrátt fyrir heimsfaraldur kórónaveirunnar. Samkvæmt nýju reglunum, sem öðlast gildi næsta mánudag, teljast aðeins ellefu Evrópuríki uppfylla þessi skilyrði. Ísland er eitt þeirra, rétt eins og Þýskaland og Pólland, Slóvakía og Albanía, svo nokkur séu nefnd.

Reglurnar kveða á um að til að land flokkist sem grænt ríki megi að hámarki hafa greinst þar tíu tilfelli á hverja 100.000 íbúa síðustu tvær vikurnar fyrir komuna til Finnlands. Sambærileg tala er 25 tilfelli á hverja 100.000 íbúa samkvæmt gildandi reglum. Fólk sem kemur frá öðrum löndum en þessum fáu grænu verður að uppfylla minnst eitt eftirtalinna skilyrða, til að sleppa við tvöfalda skimun og þaðan af strangari kröfur: 

  • Vera fullbólusettur gegn COVID-19 með viðurkenndu bóluefni
  • Hafa fengið fyrri skammt bóluefnis gegn COVID-19 minnst tveimur vikum áður en lagt er af stað til Finnlands
  • Fengið neikvæða niðurstöðu úr COVID-19 prófi. Sé þetta tilfellið þarf viðkomandi að fara í annað COVID-19 próf innan fimm daga frá komunni til Finnlands.
  • Hafa náð sér af COVID-19 sýkingu á síðustu sex mánuðum fyrir komuna til Finnlands

Uppfylli ferðalangurinn ekkert þessara skilyrða þarf hann að undirgangast COVID-19 próf strax við komuna til FInnlands og aftur innan 5 daga frá komu.

Umdeild breyting og óvenju harðar kröfur

Breytingin er nokkuð umdeild þar sem þröskuldurinn er óvenju hár og þar að auki bæði kostnaðarsamt og erfitt að fylgja þessu eftir svo vel sé. Á vef finnska ríkisútvarpsins, YLE, segir að finnska heilbrigðis- og velferðarstofnunin vilji miða við 25 tilfelli á 100.000 íbúa, og Evrópusambandið mæli með því að miðað sé við 50 tilfelli. Þá er tíðnin líka töluvert hærri innan Finnlands; 37 tilfelli á 100.000 íbúa í landinu öllu og enn hærri í höfuðborginni Helsinki, eða 64. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV