Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Atvinnuleysið fór úr 40% niður í 7%

Mynd: Anna Lilja Þórisdóttir / Ljósmynd
Atvinnulausum hefur fækkað mikið í Mýrdalshreppi.  Allir veitingastaðir og hótel í Vík hafa nú verið opnuð aftur eftir að hafa verið lokuð í faraldrinum. Hótelstjóri segir að allt sé að verða eðlilegt aftur og telur ekki ólíklegt að Kötluþættir Baltasars Kormáks muni laða ferðamenn að svæðinu.

Ferðaþjónusta er stærsti atvinnuvegurinn á svæðinu og varð fyrir miklu höggi í faraldrinum. En nú eru erlendir ferðamenn farnir að sjást aftur í Vík og það hefur áhrif á allt samfélagið.

„Við finnum svo sannarlega fyrir því,“ segir Þorbjörg Gísladóttir sveitarstjóri í Mýrdalshreppi. Hún segir að þau hótel og veitingastaðir, sem var lokað í faraldrinum, hafi nú verið opnuð aftur.

Nú eru á milli 50 og 60 atvinnulausir í sveitarfélaginu, sem eru um 7%. En hlutfallið var talsvert hærra fyrir nokkrum mánuðum, Þorbjörg segir að það hafi verið hátt í 40%. „Það fer hratt minnkandi, enda er orðið nóg að gera hjá flestum fyrirtækjum,“ segir Þorbjörg. Og hvernig störf eru það? „Þetta eru náttúrulega ferðaþjónustustörf fyrst og fremst.“

Hvaða áhrif hefur það haft á fjárhag sveitarfélagsins að vera með hátt í 40% atvinnuleysi? „Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hentuðu og komu vel inn í okkar rekstur á síðasta ári og samdrátturinn varð töluvert minni en við áttum von á.  En mér finnst núna að síðustu mánuði hafi þetta svolítið verið að bíta.“  

Og á Hótel Kötlu á Höfðabrekku austan við Vík stefnir í gott  ferðamannasumar. „Heldur betur,“ segir Anna Huld Óskarsdóttir hótelstjóri á Hótel Kötlu á Höfðabrekku, rétt austan við Vík. „Þetta er eiginlega eins og farfuglarnir. Það er allt að verða eðlilegt aftur.“

Fleiri gestir kalla á fleira starfsfólk. Segja þurfti upp starfsfólki á Hótel Kötlu í faraldrinum og sumir fóru í hlutastarf. Þegar minnst var voru 12 starfsmenn á hótelinu, nú eru þeir á þriðja tuginn og fleiri verða ráðnir. Hótelstjórinn er bjartsýnn á framhaldið og segir ekki ólíklegt að bæði hótelið og ferðaþjónustan í Vík muni njóta góðs af Kötlu, þáttum Baltasar Kormáks sem sýndir eru á Netflix.

Á von á að það sama gerist og eftir Game of Thrones

„Ég á alveg von á því að það gerist það sama eins og gerðist til dæmis með Game of Thrones ,“ segir Anna Huld. „Það kom fólk sem vissi að Game of Thrones hefði verið tekið hérna á svæðinu og hafði áhuga á að vita hverjir tökustaðirnir væru. Mér þætti mjög skrýtið ef það sama myndi ekki gerast með Kötlu.“