Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Við megum ekki láta síðustu helgi blinda okkur“

Mynd:  / 
Um síðustu helgi bárust fregnir af þónokkru hömluleysi í miðborg Reykjavíkur. Mikið var um samkvæmi, áfengisneyslu og ofbeldisverk. Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, sagði í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás tvö að síðasta helgi mætti ekki blinda okkur. Þetta sé ekki endilega það sem koma skal í skemmtistaðamenningu hér á landi.

„Við þurfum líka að hafa í huga að þarna voru mánaðamót. Unga fólkið er að fá útborgað, síðan er verið að aflétta hömlum og sumarið loksins komið þannig þetta er að mörgu leyti eins og að hleypa kálfum út að vori. Þetta stuðlar að og ýtir undir þau ósköp sem við fengum um helgina, “ segir Helgi. 

Minnir á árin eftir afléttingu bjórbannsins

Hann segir jafnframt að skemmtistaðamenning á Íslandi sé mjög ný miðað við víða erlendis. Það taki því nokkurn tíma fyrir þjóð að læra almennilega inn á menninguna. Ólætin í miðborg Reykjavíkur um helgina hafi minnt Helga á liðna tíma eða árin eftir að bjórbanni var aflétt hérlendis. Þá hafi fréttir af þessu tagi verið reglulega í fjölmiðlum. Hann er þó býsna bjartsýnn á að jafnvægi náist aftur á hegðun landsmanna á skemmtistöðum og krám. Síðasta helgi megi ekki blinda okkur. 

Hver klukkustund í opnun eykur álag á löggæslu og heilbrigðiskerfið

„Það er búið að loka mannskapinn inni í eitt og hálft ár. Þetta er eins og með dýrin; allt í einu hleypir maður þeim út og þá verða dálítil hvolpalæti. Svo kemur áfengis- og vímuefnaneyslan þarna með og það er hættulegur kokteill. “

Helgi bendir á að hver klukkustund í opnun á kvöldin auki áfengisneyslu, auka þurfi löggæslu í kjölfarið og þá skapast einnig meira álag á heilbrigðisstarfsmenn, til dæmis á bráðamóttökunni. Vissulega skapist annars konar vandi ef staðir loka fyrr. Helgi telur vænlegast að skapa skýra umgjörð. Hægt væri til dæmis að loka þeim stöðum, sem næstir eru íbúðahúsum, fyrr en þeir sem fjær eru íbúðahverfum gætu lokað síðar.