Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Þú ert of gömul, ég vil ekki láta sjá mig með þér“

Mynd: Pexels  / 

„Þú ert of gömul, ég vil ekki láta sjá mig með þér“

06.07.2021 - 10:57

Höfundar

Mæðgunum Elisu Goodkind og Lily Mandelbaum hefur tekist að skapa vettvang þar sem hreinskilni og sjálfssamþykki ræður ríkjum og sérstaða fólks fær að njóta sín, segir Melkorka Gunborg Briansdóttir um viðtalsseríu þeirra mæðgna, StyleLikeU, þar sem viðmælendur enda hálfnaktir og varnarlausir og ræða samband sitt við föt.

Melkorka Gunborg Briansdóttir skrifar:

Hvernig myndi heimurinn líta út ef öllum liði vel í eigin skinni? Þessi spurning vakir fyrir bandarísku mæðgunum Elisu Goodkind og Lily Mandelbaum, sem stofnuðu YouTube rásina StyleLikeU árið 2009. Bækistöðvar mæðgnanna eru í New York, en á YouTube rás sinni hafa þær birt ótrúlegt magn hreinskilinna viðtala við alls konar fólk af ólíkum bakgrunni. Í viðtölunum segir fólk frá lífi sínu og þeim áskorunum sem það hefur mætt, gjarnan út frá sambandi sínu við líkama sinn. Viðmælendur StyleLikeU eru á öllum aldri, af ólíkum kynþáttum, kynjum og líkamsgerðum. Öll eiga þau það þó sameiginlegt að taka þátt í sömu viðtalsformúlunni, sem gengur út á að sitja á kolli upp við vegg, segja sögu sína og fækka hægt og rólega fötum á meðan. Í lokin situr viðmælandinn varnarlaus og hálfnakinn, á nærfötunum einum fata. Það eru engar tæknibrellur, engin aðlaðandi uppstilling eða lýsing, heldur situr fólkið einfaldlega eins og það er, berskjaldað, heiðarlegt og umbúðalaust. Þetta kann að virðast sérstakt fyrirkomulag, en tilgangurinn hér að baki er táknrænn. Með því að biðja viðmælendur sína að afklæðast vilja mæðgurnar losa þá undan þeim samfélagslega þrýstingi sem við erum öll mótuð af, hugmyndum um hvernig við eigum að klæða okkur, líta út, tala og haga okkur. Mæðgurnar vilja einnig vekja athygli á að stíll er svo miklu meira en fötin sem þú klæðist, heldur líka lífsviðhorf þitt, sagan þín, hvernig þú talar, berð þig, gengur og hreyfir þig. Persónulegur stíll geti jafnvel endurspeglað hvað það er sem skiptir þig máli í lífinu, því gjarnan býr saga á bak við hverja einustu flík og fylgihlut. Og undir fötunum, hversu ólík sem við kunnum að virðast, erum við öll að kljást við okkur sjálf.

Viðtöl StyleLikeU bera titilinn „What’s Underneath,“ eða „Hvað býr undir,“ og er þannig ætlað að hvetja bæði viðmælendur og áhorfendur að hvíla sátt í eigin skinni og einblína á það sem raunverulega skiptir máli, býr undir yfirborðinu. Í lok viðtalanna eru allir spurðir sömu spurningarinnar: „Af hverju er líkami þinn góður staður að búa í?“ Svörin eru jafn ólík og þau eru mörg, sum kómísk og önnur skerandi einlæg, en öll segja þau sína sögu.

Viðtöl mæðgnanna rista djúpt og verða oft mjög persónuleg. Gjarnan eru viðmælendurnir óvenjulegir einstaklingar, eftirminnilegar týpur sem standa utan við hefðbundin norm samfélagsins að einhverju leyti, en líður vel í eigin skinni eftir að hafa sigrast á áskorunum. Aðrir virðast venjulegri en hafa engu að síður ótrúlegum reynslusögum að deila, þetta er fólk sem hefur gengið í gegnum dimma dali, komið út hinum megin, og getur talað um það af dýpt og reynslu. Viðtölin eru í raun eins og stuttar heimildamyndir, einfaldar og hráar, þar sem fólk blótar, hlær, hugsar upphátt og grætur óhindrað.

StyleLikeU hófst með röð myndbanda sem kallaðist „Closets,“ eða fataskápar,“ þar sem mæðgurnar tóku viðtöl við þá vini sína og kunningja sem þeim þótti hafa áhugaverðan fatastíl.

Þær höfðu báðar fengið sig fullsaddar af fegurðarstöðlum vestræns samfélags. Móðirin, Elisa Goodkind, vann sem stílisti fyrir mörg af helstu tískublöðum heims í um tuttugu ár. Bransinn sem hún elskaði og studdi hana einu sinni í að fagna fjölbreytileikanum var nú farinn að breytast í maskínu sem fjöldaframleiddi sömu yfirborðskenndu fegurðarímyndina. Elisa áttaði sig á að tískumyndatökurnar sem hún vann að voru að leggja sjálfsmynd dóttur hennar í rúst, en Lily hafði verið óánægð með líkama sinn frá því að hún var lítil og varið öllum unglingsárunum í megrun. Elisa ákvað því að skipta algjörlega um stefnu, fórnaði stílistaferlinum og stofnaði StyleLikeU ásamt dóttur sinni, drifin áfram af ástríðunni einni.

Með tímanum hefur mæðgunum tekist að skapa vettvang þar sem hreinskilni og sjálfssamþykki ræður ríkjum, og sérstaða fólks fær að njóta sín. Sjálfar hafa þær fylgt eigin fordæmi og stigið fyrir framan myndavélina, afklæðst og sagt sínar eigin sögur.

Þær eru skemmtilega gjörólíkar í útliti. Móðirin er með fremur skarpa drætti, grannvaxin og dökk yfirlitum, klæðir sig yfirleitt í karlmannsskyrtur, gengur með mikið skart og líður best í mörgum lögum. Dóttirin er hins vegar með mun mýkri línur, fyllra andlit, dýpri rödd og klæðir sig í litrík og oft kvenleg föt. Þær tengja þó fallega hvor við aðra, enda deila þær sameiginlegri reynslu bæði sem mæðgur og konur.

StyleLikeU verkefnið hefur notið gríðarlegra vinsælda um allan heim, en Lily og Elisa hafa meðal annars tekið viðtöl við fólk í París, Berlín, New Orleans, New York, Los Angeles og London. Þær hafa staðið fyrir fjöldamörgum viðburðum fyrir almenning, gefið út bók, gert heimildamynd og haldið námskeið um jákvæða sjálfsmynd í skólum. Alls hafa þær hlotið meira en 110 milljón áhorf á YouTube.

Ég hef sjálf lengi fylgst með þessum viðtölum. Það sem heillar mig mest er persónugalleríið sem þau ná yfir, hve viðmælendahópurinn er fjölbreyttur og endurspeglar margbreytilega flóru tilverunnar. Konur eru í meirihluta, en sögur þeirra eru jafn ólíkar og þær eru margar. Fyrirsætur af öllum stærðum og gerðum, konur á öllum aldri, fatlaðar, svartar, hinsegin, transkonur, konur af asískum og suðuramerískum uppruna, óléttar konur, konur sem hafa gengið í gegnum krabbameinsmeðferð. Innflytjendur, pönkarar, fólk sem hefur glímt við fíknisjúkdóma, ungir, svartir karlmenn, fólk sem skilgreinir sig utan hefðbundinnar kynjatvíhyggju, fólk sem hefur alist upp við trúarofstæki. Það sem einkennir bestu viðtölin er hispursleysið, en þar segir fólk á einlægan og eftirminnilegan hátt frá lífi sínu, talar um móðurhlutverkið, átraskanir, þunglyndi, geðræn vandamál, ofbeldi, misnotkun, eitraða karlmennsku, kynþáttafordóma, fósturlát og það að eldast.

Að lokum langar mig að hvetja þig, kæri lesandi, til að spyrja sjálfan þig þeirra spurninga sem mæðgurnar spyrja viðmælendur sína. Hvað segir fatastíllinn þinn um þig? Hvaða ályktanir dregur fólk gjarnan um þig út frá því hvernig þú klæðir þig og berð þig? Og af hverju er líkami þinn góður staður að búa í?

Tengdar fréttir

Pistlar

Afturfætur fíls: Staða kvenna í þremur löndum