Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Stórmyndaleikstjórinn Richard Donner látinn

Mynd með færslu
 Mynd: AP

Stórmyndaleikstjórinn Richard Donner látinn

06.07.2021 - 00:56

Höfundar

Kvikmyndagerðarmaðurinn Richard Donner, sem leikstýrði mörgum helstu stórmyndum áttunda og níunda áratugarins, lést í gær. Hann var 91 árs að aldri.

Leikstjórnarferill Donners hófst þegar á sjöunda áratugnum í mörgum af helstu bandarísku sjónvarpsþáttum þess tíma. Hann leikstýrði nokkrum þáttum í þáttaröðum á borð við Perry Mason, The Twilight Zone, Gilligan's Island og Get Smart. Fyrsta kvikmyndin sem hann leikstýrði fyrir hvíta tjaldið var hryllingsmyndin The Omen árið 1976. Myndin naut mikilla vinsælda og hlaut óskarsverðlaun fyrir bestu tónlist. Næstu tvær myndir sem hann leikstýrði voru um ofurmennið Superman, með Christopher Reeve í aðalhlutverki.

Hann leikstýrði svo fjölda stórmynda á níunda áratugnum. Þeirra á meðal voru Ladyhawke, The Goonies, Scrooged og síðast en ekki síst Lethal Weapon myndirnar. Ferlinum lauk svo árið 2006 með spennumyndinni 16 blocks með Bruce Willis í aðalhlutverki. 

Donner var fæddur og uppalinn í New York borg. Ekkert hefur verið gefið upp um banamein hans í fjölmiðlum vestanhafs. 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Fleiri ættu að fara yfir strikið