Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ráðherrar EFTA-ríkjanna funduðu á Siglufirði

06.07.2021 - 20:59
Innlent · EFTA
Mynd með færslu
 Mynd: Utanríkisráðuneytið
Ráðherrar EFTA-ríkjanna komu saman á óformlegum fundi á Siglufirði í dag. Utanríkisráðherra segir mikilvægt að tala máli fríverslunar þegar umræða um ágæti verndarstefnu sé víða orðin háværari.

Ísland tók við formennsku í EFTA um síðustu mánaðamót og í dag hitti Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, utanríkisráðherra Liechtenstein, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs og forseta Sviss, sem einnig er ráðherra efnahagsmála, á óformlegum fundi á Siglufirði. Vegna faraldursins er þetta í fyrsta sinn í tuttugu mánuði sem ráðherrarnir hittast í eigin persónu.

„Það er ýmislegt sem bendir til þess að við þurfum að fara að koma þeim skilaboðum áleiðis hversu mikilvæg fríverslun er. Hún skiptir EFTA-ríkin öll alveg gríðarlega miklu máli en við höfum fundið fyrir því í EFTA-ríkjunum, og þá sérstaklega í Sviss og Noregi, að þau sjónarmið að menn eigi að leggja meiri áherslu á verndarstefnu séu háværari, og það er svo sannarlega líka annars staðar í Evrópu og heiminum,“ segir Guðlaugur.

Hann fer til Bretlands á fimmtudaginn þar sem nýr fríverslunarsamningur við Breta verður undirritaður. „Fram til þessa hafa þetta bara verið EFTA-ríkin og ESB sem hafa verið að gera fríverslunarsamninga fyrir hönd Evrópuríkjanna. Núna erum við með Bretland sem er að gera sína eigin fríverslunarsamninga og er með mjög metnaðarfullar áætlanir hvað það varðar. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur ráðherrana að setjast yfir þetta, meta stöðuna og næstu skref,“ segir Guðlaugur.