Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Öll makrílveiðin á vertíðinni utan landhelginnar

06.07.2021 - 18:06
Vinirnir Smári Geirsson og Guðmundur Bjarnason fyrrum starfsmannastjóri og stjórnarmaður í Síldarvinnslunni fór á makríllveiðar með Berki NK haustið 2014.
 Mynd: svn.is
Engin makrílveiði hefur verið í íslensku lögsögunni það sem af er vertíð, en tveggja sólarhringa sigling er á miðin í Síldarsmugunni. Framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar gagnrýnir Norðmenn og Færeyinga fyrir að taka sér mun meiri makrílkvóta en eðlilegt geti talist.

Makrílvertíðin hófst í lok júní og skipum hefur fjölgað jafnt og þétt á miðunum síðan þá. Flestar íslensku útgerðirnar hafa nú sent skip til makrílveiða.

Allt að 400 mílna sigling á miðin

Veiðin er á alþjóðlegu hafsvæði í Síldarsmugunni því enn hefur ekki fundist makríll í íslensku landhelginni á þessari vertíð. „Í síðasta túr fengum við 700 tonn þarna og þá voru alveg 330-400 mílur í hann,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar. „Við höfum fulla trú á því þegar hitastig hækkar að við fáum makríl á Íslandsmið.“

Mjög mikilvægt að makríllinn gangi upp að landinu

Það skiptir máli að veiða makrílinn í landhelginni til þess að skapa veiðireynslu og samningsstöðu, en ekkert samkomulag er í gildi um skiptingu aflaheimilda milli þjóðanna sem veiða úr makrílstofninum. Þar setur hver þjóð sér sitt aflamark og íslenski makrílaflinn í ár var ákvarðaður rúm 140 þúsund tonn. „Við byrjuðum að veiða makríl fyrir rúmum áratug, um þrettán árum. Og við höfum styrkt okkar stöðu ár frá ári af því hann hefur gengið inn á Íslandsmið og alveg vestur fyrir land. Og það segir sig sjálft, það er mjög mikilvægt,“ segir Friðrik. 

Gagnrýnir Norðmenn og Færeyinga 

Hann gagnrýnir ákvörðun Norðmanna og Færeyinga sem hafi tekið sé 55% meiri kvóta á þessu ári en því síðasta. Veiði umfram heimildir gangi nærri stofninum auk þess sem þarna gætu komið tæp 200 þúsund tonn aukalega inn á markaðina, sem hefði slæm áhrif á annars góða markaðsstöðu. „Það eru skilaboð út í markaðina að það verði mikið til af vöru. En auðvitað vitum við ekkert hvernig þeim gengur að veiða allt þetta magn. Þannig að það er verið að skemma svolítið fyrir eins og þetta er í augnablikinu.“