Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Nógir peningar til að laga skemmdir

06.07.2021 - 16:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra fullyrðir að fljótt og vel verði gert við vegaskemmdir sem urðu vegna vatnavaxta norðanlands og víðar. Nóg sé til af peningum í slík verkefni.

Í forgangi að laga skemmdir

„Fjármunirnir eru nú held ég að mestu leyti til staðar" segir Sigurður Ingi.  „Ég hef nú ekki séð nákvæma samantekt yfir það tjón sem varð. Það varð talsvert tjón. Við erum með ágæta fjármögnun á viðhaldi og Vegagerðin forgangsraðar eftir því hvar þörfin er mest. Og það þarf að byrja á að laga svona hluti"

Gengur fljótt og vel 

Þannig að fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af því að viðhaldið dragist vegna þess að ekki er til fjármagn?

„Nei. Alls ekki. Við erum með talsvert mikla fjármuni í samgöngukerfinu og ef að kemur í ljós að það er einhver sérstök þörf þá er það tekið til skoðunar og fjármagnað. Það mun ekki stranda á því vegna framkvæmdanna og viðgerðanna".

Þetta mun þá ganga fljótt og vel? 

„Já fljótt og vel" segir Sigurður Ingi Jóhannsson. 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV