Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Mæla traust og bera saman milli ríkja

06.07.2021 - 14:37
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RUV
Norðurlöndin öll, Ísland þeirra á meðal og mörg OECD-ríki ætla að gera könnun á trausti almennings til opinberra stofnana. OECD hefur lengi þróað kannanir um traust, því það er ekki einfalt að mæla segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sem kynnti þessi áform á ríkisstjórnarfundi.

Katrín segir að um margt verði þetta svipað könnunum sem gerðar hafa verið hér heima, en en líka verði skoðað hvaða drifkraftar séu á bak við traustið, hvað ræður og hvað  getur haft áhrif á það að traust dvínar.

Þannig að við erum að fara að taka þátt í þessu í fyrsta sinn og það verður mjög áhugavert að sjá niðurstöðurnar og  í fyrsta sinn höfum við þá líka alþjóðlega  samanburðarhæf gögn um traust milli ríkja innan OECD.

Sami mælikvarði verði notaður í öllum löndum.  Aðspurð um hvort hún óttist niðurstöðuna segir Katrín að alltaf sé betra að hafa gögnin fyrir framan sig,  þá sé hægt að vinna úr þeim. 

Kannski ef við tökum það saman sem maður hefur getað dregið út úr, traustmælingum á Íslandi þá er samfélagslegt traust mikið, við treystum hvert öðru. Það er kannski minna traust á einstökum stofnunum, sumar stofnanir njóta mikils trausts. Þessi stofnun sem við erum í hér hrapaði töluvert eftir hrun en hefur nú hægt og  bítandi verið að fara upp á við í trausti.

Áhugavert og mikilvægt að fylgjast með þessu. sagði Katrín þegar rætt var við hana í Alþingishúsinu. Traust til þess opinbera segi auðvitað mjög mikið um samfélagsástand á hverjum tíma .