Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lúsmýið komið norður

06.07.2021 - 13:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það hefur ekki farið fram hjá Akureyringum og þeim fjölmenna hópi gesta sem var á Akureyri um helgina að lúsmýið er komið norður. Krem, sem ætluð eru til að vinna bug á kláða og koma í veg fyrir bit, seldust upp hjá lyfsölum um helgina.

Hefur dreift sér hratt um landið

Menn urðu fyrst varir við lúsmý hér á landi árið 2015. Í fyrstu var þessi óvelkomni gestur einungis á Suðvesturlandi en hefur nú dreift sér um landið. Samkvæmt Gísla Má Gíslasyni, skordýrafræðingi, hefur lúsmýið dreift mjög hratt úr sér enda mjög lítið og berst langt í vindi. Það hefur þó ekki enn fundist á Aust- og Vestfjörðum, né á Snæfellsnesi. Lúsmýið virðist mest vera í uppsveitum landsins. Annars er margt á huldu varðandi tegundina og til dæmis ekki vitað hvar hún fjölgar sér.

Margir bitnir um helgina

Um helgina voru margir ferðamenn á Akureyri í tengslum við stór fótboltamót. Hrafnhildur Ýr Jóhannsdóttir, starfsmaður í Apótekaranum á Akureyri, segir að mjög margir hafi leitað til þeirra. „Já, alveg rosalega margir og vikuna fyrir. Mjög margir og auðvitað allir búnir að vera úti, það er svo gott veður og kannski ekki allir sem áttuðu sig á að lúsmýið væri komið hingað norður.“

Hrafnhildur segir að sumir hafi verið mjög illa bitnir. „Það eru mjög margir með ljót bit. Ég hef ráðlagt einhverjum að kíkja á þetta hjá lækni. En kannski flestir eru með minna en þá bara dugir smá krem þótt sumir þurfi að taka ofnæmislyf til að ráða við kláðann.“