Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jöklar rýrnuðu lítillega árið 2020

06.07.2021 - 17:54
Öræfajökull hulinn snjó, hátindinn Hvannadalshnjúk ber við heiðan himin.
 Mynd: RÚV
Einhver helsta afleiðing og skýrasti vitnisburður um hlýnandi loftslag hér á landi er rýrnun jökla landsins. Í fréttabréfi Veðurstofunnar og Vatnajökulsþjóðgarðs kemur fram að á árinu 2020 hopuðu jökulsporðar víða um tugi metra en nokkrir skriðjöklar gengu svolítið fram.

Í fréttabréfi Veðurstofunnar og Vatnajökulsþjóðgarðs kemur fram að á árinu 2020 hopuðu jökulsporðar víða um tugi metra en nokkrir skriðjöklar gengu svolítið fram.

Afkoma stærstu íslensku jöklanna var neikvæð árið 2020 en afkoman hefur verið neikvæð síðan 1995 að árinu 2015 undanskildu. Afkoma Langjökuls, Hofsjökuls og Vatnajökuls, þriggja stærstu jökla landsins, var neikvæð árið 2020 en ekki eins mikið og 2019 en sumarið það ár var mjög hlýtt.

Alls hafa jöklarnir tapa um 250 rúmkílómetrum íss síðan 1995 eða 7% af heildarrúmmáli. Flatarmál íslenskra jökla hefur minnkað um u.þ.b. 800 km² síðan árið 2000.

Sá jökull sem hopaði hvað mest á árinu 2020 var Breiðamerkurjökull.  Jökullinn hopaði milli 100 og 250 metra á því svæði þar sem kelfir af honum í Jökulsárlón. Einnig brotnaði af Heinabergsjökli í lón og styttist sporðurinn í kjölfarið um rúmlega 100 metra.

Andri Magnús Eysteinsson