Framtíðin er í skógrækt

Mynd: RÚV / RÚV

Framtíðin er í skógrækt

06.07.2021 - 15:36

Höfundar

„Þetta hefur aldrei verið gert af þessari stærðargráðu áður,“ segir Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, en verið er að byggja 100 metra langa brú úr alíslenku efni yfir Þjórsá.

Þjórsáin er ill yfirferðar og þrátt fyrir að vera lengsta á landsins, um 230 kílómetrar, þá er hún ekki brúuð á mörgum stöðum. Nú í sumar bættist þó ein brú við, en sú er eingöngu ætluð fyrir hesta og menn, annaðhvort saman eða hvora í sínu lagi. Nýja brúin, sem er glæsilegt mannvirki byggt úr alíslenskum efnivið, er skammt fyrir ofan Þjófafoss. Með tilkomu hennar batnar til muna aðgengi að Búrfellsskógi og fleiri náttúruperlum. Sumarlandinn rölti yfir brúna á dögunum.  

Nýja brúin er einstök að því leytinu til að notast er við íslenskt timbur úr Haukadalsskógi og er hún því fyrsta alíslenska brúin. Ekki er hægt að nota hvaða timbur sem er og þarf að vanda til verka við val á trjám, þetta segir Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi. Hann segir þau hafa haft það að markmiði að sækja besta efnið fyrir verkið. En slíkt verkefni hefur aldrei verið gert af þessari stærðargráðu áður, um 8,5 kílómetrar af timbri hafa farið í brúna sjálfa. 

Greni hentar vel í slíkt verk, en það vex fremur beint og jafnt. Þegar efniviður er valinn þarf að horfa til gæða á borð við hvernig tréð er vaxið og styrkleika þess. „Að tréð sé ekki vaxið eins og gulrót á hvolfi,“ segir Trausti. Þá segir hann að besta efnið komi úr skógi sem hefur fengið góða umhirðu, það er trjánum hefur verið plantað rétt, með hæfilega þéttu millibili og grisjað sé á réttum tíma.  

Trausti segir þessa brú verða enn einn áfangastaðinn í ferðamannaflóru Íslands enda fallegt svæði sem nú sjáist frá nýju sjónarhorni. „Það eru ekkert rosalega margir sem hafa komið hingað og upplifað þetta svæði,“ segir hann og telur brúna breyta miklu fyrir svæðið.  

Auk brúarsmíði er íslenska timbrið notað í ýmis klæðningarefni, parket og pallefni, kurl og arinvið svo að dæmi séu nefnd. Trausti segir einnig að alls kyns aðrar afurðir á borð við ilmolíur komi úr skóginum og að nánast allt sem hægt sé að búa til úr plasti megi gera úr skógarefni. 

Trausti segist vera stoltur af árangrinum og að þróun skógarefnis sé komin þetta langt. „Það gleður mann ótrúlega mikið að við séum komin hingað,“ segir hann. Þá sé smátt og smátt að skapast meiri eftirspurn og væntingar eftir íslensku timbri og fleiri aðilar að koma inn í framleiðsluna. „Það eru ekki bara við Skógræktarfélagið sem stöndum að berjast við sögina,“ segir Trausti og er ánægður með að einkaaðilar og skógarbændur séu komnir með í slaginn. Framtíðin sé í skógrækt. 

Sumarlandinn verður á flakki í sumar og hittir landann fyrir í sínu náttúrulega umhverfi, uppi á fjöllum, úti í garði, inni í skógi og allt um kring. Sumarlandinn leitar uppi áhugaverða viðburði og skemmtilegar sögur. Sumarlandinn tekur líka lagið ef vel liggur á honum. 

Tengdar fréttir

Mannlíf

Notar lúpínu til að lita silki

Mannlíf

„Við eigum svo glæsilegar sundlaugar“

Menningarefni

Gömlu salthúsi breytt í fallegt listrými

Mannlíf

Öll skynfærin nærð í færanlegu gufubaði