Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Ég held að þetta sé bara þessi nýi taktur“

06.07.2021 - 19:17
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Síðustu daga hefur borið á því að takturinn í gosinu við Fagradalsfjall hafi breyst nokkuð. Gosóróinn hefur dottið niður en tekið sig svo aftur upp að nýju. Hafa orðið nokkur svokölluð goshlé.

Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur var staddur við gosstöðvarnar þegar fréttastofa ræddi við hann. Ármann sagði að hraun rynni enn undir skorpunni. Gosið væri ekki hætt.

„Við sjáum að það rýkur brennisteinn hér upp úr og við sjáum rauðar glæður niður í Merardali. Þannig að hraun rennur enn undir skorpunni,“ sagði Ármann.

„Ég held að þetta sé bara þessi nýi taktur. Gígurinn er orðinn svo stór og hár, gosið sjálft hefur aldrei verið mjög kröftugt þannig að það er auðveldara að dæla hrauni bein inn í hraunbreiðuna í stað þess að sýna hana uppi á yfirborðinu,“ sagði Ármann.

Þoka hefur legið yfir gosstöðvunum í dag og er skyggni lítið á veffmyndavél RÚV. Ármann sagði aðstæður fínar við gosstöðvarnar þó þær gætu verið betri.
 

Andri Magnús Eysteinsson