„Ég er ekki að dansa svona útaf honum“  

Mynd: Aðsend / Sandra Sano

„Ég er ekki að dansa svona útaf honum“  

06.07.2021 - 14:09

Höfundar

Eftir að hafa þekkst í um tíu ár ákváðu þau Sandra Sano og Mamady Sano, dansarar, að slá til og verða par. Þá hafði Sandra verið í afrískum dönsum í tæp 15 ár og hafði því eiginmaðurinn engin áhrif á hrifningu hennar af stílnum, en Mamady er þekktur dansari frá Gíneu.

Danskonan Sandra Sano Erlingsdóttir sérhæfir sig í afrískum dönsum og byggir nú dans- og tónlistarskóla í Gíneu með eiginmanni sínum, Mamady Sano. Hún hefur alla tíð verið listræn og vissi í raun alltaf að hún myndi starfa við eitthvað skapandi. Hún vann fyrir sér sem gullsmiður í New York um tíma en að endingu tók dansinn og Gínea yfir.   

Svo var ekki aftur snúið 

„Ég er búin að vera að dansa alveg frá því ég var 5 ára,“ segir Sandra í viðtali við Sigurlaugu Margréti Jónsdóttur í Segðu mér á Rás 1. Þá hafði hún til að mynda verið í djassi og nútíma- og samkvæmisdansi en árið 1995 var Sandra dregin í afríska dansa. „Ég hélt fyrst að þetta væri bara einhver skrítinn dans en svo var ekki aftur snúið.“  

Það sé engu líkt að dansa við lifandi trommutónlist líkt og er gert í Gíneu, en þaðan eru dansarnir sem hún sérhæfir sig í. Þá sé gífurleg tenging á milli dansarans og tónlistarmannsins. Það hafi tekið hana smá tíma að læra tæknina en hún segir alla geta lært slíka dansa.  

Gæti ekki farið til baka  

Sandra vissi alltaf að hún myndi gera eitthvað listrænt, hvort sem það yrði í dansi eða annarri sköpun. Í menntaskóla var hún í myndlist og fatahönnun og ákvað svo að skella sér í djúpu laugina og læra gullsmíði í New York við FIT, eða Fashion Institute of Technology. Þá hafi hún búið úti frá árunum 2002-2005 en var alltaf í dansinum á kvöldin.  

Að skólanum loknum starfaði Sandra sem gullsmiður í Diamond District í New York hjá skartgripahönnuði. Þarna voru 20 gullsmiðir hjá einum hönnuði og vann Sandra í rauninni eins og vél. „Maður lærir ótrúlega mikið en þetta er ekki beint það mest skapandi sem maður hefur gert,“ og fann hún fljótt að starfið ætti ekki við sig. Þarna hafi hún þó lært að vinna hratt og vel.  

„Ég verð að vera að skapa,“ og segir Sandra það ekki skipta máli hvort það sé dans eða listaverk. Hún geti ekki unnið fyrir einhvern annan sem stjórnar henni heldur verði hún að hafa hendur við stýrið. „Ég er komin í sjálfstæðan atvinnurekstur og er verktaki úti um allt, ég gæti ekki farið til baka.“ Svo tók dansinn yfir og sagði hún skilið við skartgripasmíðina, í dag tekur hún einungis að sér einstaka verkefni við og við en kennir dans frá morgni til kvölds.  

Er ekki að dansa svona útaf eiginmanninum  

„Ég elskaði New York, áður en ég flutti fór ég þrisvar sinnum á einu ári að dansa,“ segir Sandra en hún kynntist líka manninum sínum, Mamady Sano, á þessum tíma. Þá hafi hann alltaf verið einn af hennar uppáhalds kennurum, þau kynntust árið 2000 en byrjuðu ekki saman fyrr en tíu árum síðar.  

„Við þekktumst bara sem kunningjar og svo er hann bara á einhverjum öðrum stað,“ segir Sandra. En árið 2010 hafi hún verið í New York með Brynju Péturs og Kristínu Bergs og þá hafi eitthvað gerst. „Við vorum tilbúin.“  

Mamady er vel þekktur í dansheiminum og ferðast um allan heim að kenna. Þau hafi því oft verið í fjarbúð í nokkra mánuði, jafnvel hálft ár, í senn. Árið 2013 giftu þau sig og flutti hann til Íslands eftir að hafa búið í New York í 16 ár. „Maður verður víst að vera giftur til að búa í sama landi,“ segir hún.   

Þá hafi Sandra verið í gíneskum dönsum í 15 ár áður en hún og Mamady, sem er frá Gíneu, tóku saman. Hún sé því ekki að dansa á þennan hátt hans vegna.  

Vildu gefa til baka  

Gínea er fremur fátækt land en Sandra fór þangað fyrst árið 2007. Á þeim tíma var engin almennileg nettenging eða símasamband og upplifði hún landið sem algjört frí frá utanaðkomandi áreiti. „Það sem ég minnist mest er þessi gleði sem er svo ótrúleg,“ segir Sandra en þótt að fólk hafi ekki átt mikið þá ríkti svakaleg gleði yfir því. „Fólk gefur sér tíma til þess að dansa og syngja, spila tónlist,“ og finnst Söndru það vanta hér á Íslandi, hér séu allir að drífa sig.  

Þau Sandra og Mamady standa nú fyrir uppbyggingu dans- og tónlistarskóla í Dubréka í Gíneu. Skólinn er hugsaður sem húsnæði fyrir nemendur sem koma frá Íslandi og öðrum löndum til að vera í. Þetta sé algjör náttúruparadís, með fjöllum og fossum og er þá allt öðruvísi en að vera í höfuðborginni. „Þótt það sé æðislegt að vera þar líka því þar er menningin svo mikil í dansinum og tónlistinni.“  

„Þessi menning hefur gefið okkur svo mikið, okkur langaði til að gefa til baka með því að koma með atvinnutækifæri,“ segir Sandra en mikið atvinnuleysi sé í landinu og þá sérstaklega þessu hverfi. Þarna sé fólk sem hefur ekki endilega aðgang að dansflokkunum, enda séu einungis tveir flokkar styrktir af ríkinu. Vilja þau því geta veitt fólki vinnu við danskennslu og skapað fleiri tækifæri fyrir dansara. Síðan kæmi inn peningur ef fólk kæmi alls staðar að, frá Evrópu og Ameríku til dæmis. Þau séu að gera þetta fyrir heimamenn og byggja upp nýja kynslóð af dönsurum.  

„Það skilja þetta ekki allir,“ segir Sandra en þau Mamady fjármagna framkvæmdirnar sjálf en á meðan kaupa þau sér ekki eigið húsnæði heldur leggja allt í skólann. Af og til halda þau fjáröflun og selja afrísk klæði og mat. Draumurinn er svo að verða helminginn af árinu úti í Gíneu og hinn helminginn hér heima. „Svo verðum við kannski þarna bara í ellinni.“  

Frá því að Sandra fór fyrst út hefur hún farið 7 sinnum til viðbótar, Mamady fari hins vegar á hverju ári. Þá langi hana líka oft út en peningalega séð sé það ekki alltaf möguleiki. En það sé algjörlega ómissandi að fara, „ef maður fer einu sinni til Afríku þá langar manni alltaf aftur“. 

Hægt er að fylgjast með störfum Söndru og Mamadys á Facebook-síðu þeirra Dans Afríka Iceland, en þau séu iðulega með námskeið og fría útitíma. Sandra segir að allir geti dansað afríska dansa og hvetur fólk til að prófa.  

Rætt var við Söndru í Segðu mér á Rás 1. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér.  

 

Tengdar fréttir

Hönnun

Dansandi trúðar og sirkusföt