Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Alls 93 mál skráð hjá lögreglu í gærkvöld og í nótt

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Nóttin var annasöm hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en alls hafa 93 mál verið skráð frá því í gærkvöld. Mörg verkefnanna tengdust fólki í annarlegu ástandi.

Tilkynnt var um bifreið sem hafði ekið á ljósastaur í miðbænum síðdegis í gær. Ökumaðurinn hafði ekið bifreiðinni á brott þegar lögregla kom á staðinn. Þegar lögreglumenn náðu að hafa uppi á ökumanninum reyndist hann vera í annarlegu ástandi. Hann sagðist þá hafa verið í símanum og þess vegna ekið á staurinn. Hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa. 

Lögreglumenn horfðu á ökumann aka á umferðarskilti í nótt. Hann reyndi að koma sér undan lögreglumönnum og ók þá utan í kyrrstæða bifreið við það. Ökumaður stöðvaði ekki akstur þrátt fyrir fyrirmæli lögreglu sem veitti manninum eftirför. Hann var að lokum handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og vistaður í fangaklefa. 

Þá bárust meðal annars tilkynningar um slagsmál manna við verslun í Hafnarfirði og mann sem var að spreyja málningu á strætóbiðstöð. Í dagbók lögreglu kemur fram að spreyjarinn verði kærður fyrir eignaspjöll.