Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Von á 90 skemmtiferðaskipum til Akureyrar í sumar

05.07.2021 - 19:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Von er á tæplega 90 skemmtiferðaskipum til þriggja hafna Akureyrarbæjar í sumar. Hafnarstjórinn segir allt smám saman vera að rétta úr kútnum en tekjutap vegna afbókana í fyrrasumar var rúmar 400 milljónir króna.

Eftir langt hlé eru skemmtiferðaskip nú farin að sjást við bryggju á Akureyri á ný. Ekkert skemmtiferðaskip kom þangað í fyrra, en eitt lítið skip kom tvisvar til Grímseyjar og Hríseyjar. 

Tekjutapið í fyrra ríflega 400 milljónir

„Við áætlum að tekjutapið í fyrra hafi verið ríflega 400 milljónir. Þetta hafði mikil áhrif á reksturinn hjá okkur,“ segir Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnarsamlags Norðurlands. Og hann segir að tekjur af skipakomum í sumar verði um 20% af áætluðum tekjum miðað við fullbókað bryggjupláss. „Það er svona aðeins að rétta úr kútnum með þetta. Við erum að fá einhver 60 skip til Akureyrar og  25-30 til minni hafna eins og Grímseyjar og Hríseyjar.“

Engin stór skip væntanleg

Engin stór skip eru inni í myndinni eins og staðan er núna, en þetta verða mestallt skip með 150 til 200 farþega. „En þó er Viking skipafélagið að sigla hringinn í kringum landið með 8-900 farþega og það gengur vel að selja í þær ferðir,“ segir hann.

Skipafélögin fari varlega og haldi farþegum í afmörkuðum hópum

Hann segir ljóst að skipafélögin fari varlega og reyni að halda farþegunum saman í afmörkuðum hópum. Þá sé viðbúið að skipin heimsæki færri hafnir en áður. Þetta eigi þó væntanlega eftir að þróast þegar frá líður. „Já ég held að þetta breytist svona hægt og rólega þegar líður á sumarið, en þetta verður kannski ekki eins frjálst og verið hefur undanfarin ár.“

„Síðan líta næsta og þarnæsta ár svakalega vel út og það verður örugglega mikill erill hérna ef allt verður í eðlilegu standi,“ segir Pétur.