Valborg Ólafs - Silhouette

Mynd: Valborg Ólafs / Silhouette

Valborg Ólafs - Silhouette

05.07.2021 - 14:50

Höfundar

Önnur plata Valborgar Ólafs kom út þann 2. júlí síðastliðinn og heitir Silhouette. Platan er nokkuð frábrugðin þröngskífu Valborgar sem kom út árið 2019 en grundvallarmunurinn er sá að hljómsveitarmeðlimir tóku allir þátt í að semja og útsetja lögin sem útskýrir þær ólíku stefnur sem þau taka.

Silhouette tók heilt ár í vinnslu, en fyrstu fimm lögin voru tekin upp í stúdíó Dallas í Hafnarfirði og byrjuðu upptökur þar í mars 2020. Seinni hluti plötunnar, fjögur lög voru tekin upp af hljómsveitinni sjálfri í Ásólfsskálakirkju undir Eyjafjöllum. Mikill hluti af upptökuferlinu fór fram á bænum Holti þar sem Valborg er búsett.

Heildarhljómur plötunnar er síðan eitthvað sem hljómsveitarmeðlimir eru virkilega ánægðir með, og lögin fá þann hljóm sem lagt var upp með. Það þakka þau Bjarna Þór Jenssyni sem sá um að mixa og mastera gripinn. Það var síðan Atli Sigursveinsson sem hannaði umbúðirnar sem innsigla tónheiminn sem hljómsveitin skapar á Silhouette.

Hljómsveitina skipa söngkonan Valborg Ólafsdóttir en hún spilar auk þess á gítar og píanó, Orri Guðmundsson er á slagverk, Balvin Freyr Þorsteinsson á gítar og Elvar Bragi Kristjónsson spilar á bassa, hljóðgervla og hljómborð.

Nýútkomin plata hljómsveitarinnar Valborgar Ólafs - Silhouette, er plata vikunnar á Rás 2 og verður flutt í heild sinni ásamt kynningum sveitarinnar á tilurð lagana eftir tíufréttir í kvöld mánudag auk þess að vera aðgengileg í spilara.

Mynd með færslu
 Mynd: Atli Sigursveinsson - Silhouette
Valborg Ólafs - Silhouette