Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Þarf ekki að óttast um öryggi sitt

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Almenningur þarf hvorki að óttast um öryggi sitt né veigra sér við að óska eftir aðstoð sjúkraliðs segir slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins. Sprenging hefur orðið í fjölda sjúkraflutninga það sem af er ári og álag á sjúkraflutningamenn aukist að sama skapi. 

Sjúkraflutningum fjölgað um nærri fjórðung

Sjúkraflutningum fjölgaði um rúmlega 3.500 á fyrstu sex mánuðum þessa árs samanborið við árið í fyrra, úr tæplega 15.500  í tæplega 19.000. Þetta er 23% fjölgun. Athygli vekur að flutningarnir voru vel yfir hundrað á sólarhring í 105 daga af 181. Það er allt önnur tilhneiging en undanfarin ár þar sem ekki var algengt að flutningarnir væru fleiri en eitt hundrað á sólarhring. Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri segir þetta hafa skapað álag á vaktirnar og það vanti fleira fólk í vinnu. 

Ekki veigra sér við að hringja 

„Við erum alls ekki komin á þann stað að fólk eigi að veigra sér við að hringja í okkur" segir Jón Viðar. „En það er klárlega gífurlega mikið álag á starfseminni. Síðasta ár hefur verið mjög þungt. Við þurfum fleira fólk. Tölurnar tala þannig við okkur. Bæði til að tryggja nægilegt viðbragð gagnvart slökkviliðinu og ekki síður gagnvart sjúkraflutningunum. Vonandi er þetta að róast, en það er ekkert sem segir manni að svo sé". 

Hefur almenningur ástæðu til að óttast um öryggi sitt út af þessu?

„Nei. Ég fullyrði að svo sé ekki.  Fólk þarf ekki að veigra sér við að óska eftir aðstoð frá okkur" segir Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri. 

Almennt álagt á heilbrigðiskerfinu og þjóðin eldist

 Jón Viðar segir að sjúkra- og slökkviliðsmönnum á vöktum hafi fjölgað á höfuðborgarsvæðinu úr 119 í 160 á síðustu sex árum. Fjölga þurfi enn frekar í hópnum en það gerist ekki á einni nóttu því inntökuskilyrðin eru ströng og þjálfunin krefjandi. Hann segist ekki hafa neina eina skýringu á þessari fjölgun í sjúkraflutningum, álagið hafi almennt aukist í heilbrigðiskerfinu og svo sé þjóðin að eldast. Það skýri hins vegar ekki þessa miklu fjölgun.

Aukaálag vegna skemmtanahalds 

Svo bætist við álag um helgar vegna skemmtanahalds landans. Það sé einnig áhyggjuefni.

„Maður er svolítið hugsi yfir þessu" segir Jón Viðar.  „Af hverju er ekki hægt að skemmta sér án þess að láta reyna á starfsemi sjúkraflutninga, slökkviliðs eða lögreglu? Er ekki bara hægt að gera þetta einhvern veginn öðruvísi?"  

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV