Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Snæfríður Sól keppir á Ólympíuleikunum

Mynd með færslu
 Mynd: SSÍ

Snæfríður Sól keppir á Ólympíuleikunum

05.07.2021 - 10:06
Sundkonan Snæfríður Sól Jórunnardóttir hefur fengið staðfestan keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Tókýó. Snæfríður mun synda bæði 100 og 200 m skriðsund.

Snæfríður hafði synt undir svokölluðu B-lágmarki í 200 m skriðsundi í mars. Það eitt og sér dugar ekki. En þar sem Ísland á rétt á sæti fyrir eina konu og einn karl í sundi óháð lágmörkum fékk Snæfríður úthlutað sæti í sundkeppni Ólympíuleikanna.

FINA, Alþjóða sundsambandið staðfesti þetta um helgina með boðsbréfi til Sundsambands Íslands. ÍSÍ staðfestir svo boðið í dag. Auk 200 m skriðsundsins mun Snæfríður einnig synda 100 m skriðsund í Tókýó. Hún mun synda í undanrásum 200 m skriðsundsins 26. júlí og í undanrásum 100 m skriðsundsins 28. júlí.

Fámennasta sveit Íslands síðan 1964 í Tókýó

Snæfríður Sól verður eina konan sem keppir fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í Tókýó. Áður höfðu Anton Sveinn McKee fengið keppnisrétt í 200 m bringusundi, Ásgeir Sigurgeirsson í skotfimi og Guðni Valur Guðnason í kringlukasti. Þetta verður fámennasti keppendalisti Íslands á sumarólympíuleikum í 57 ár. Síðast átti Ísland aðeins fjóra keppendur á sumarólympíuleikum árið 1964, sem vill til að voru einmitt haldnir líka í Tókýó. Þá voru keppendur Íslands einmitt líka þrír karlar og ein kona.

Snæfríður Sól hefur aldrei áður keppt á Ólympíuleikum, þannig hún þreytir frumraun sína í Tókýó. Anton Sveinn (2012 og 2016), Ásgeir (2012) og Guðni Valur (2016) hafa hins vegar allir keppt áður á Ólympíuleikum.

Ólympíuleikarnir í Tókýó hefjast 23. júlí og þeir standa yfir til 8. ágúst. Sýnt verður beint frá fjölda viðburða á leikunum á rásum RÚV.