Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Selja hluti sína í fyrirtækjum á landtökubyggðum

05.07.2021 - 06:59
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Stærsti lífeyrissjóður Noregs, KLP, ætlar að losa sig við hlutafé í sextán fyrirtækjum sem tengjast ísraelskum landtökubyggðum á Vesturbakkanum. Þeirra á meðal er hlutur sjóðsins í fjarskiptarisanum Motorola.

Frá þessu er greint í yfirlýsingu KLP í morgun. Sjóðurinn á hluti í fyrirtækjum víðs vegar um heim að verðmæti 95 milljarða dollara að sögn AFP fréttastofunnar, jafnvirði nærri 12 þúsund milljarða króna. 

Fjárlosunin fylgir útgáfu Sameinuðu þjóðanna á lista yfir starfsemi 112 fyrirtækja sem tengjast á einhvern hátt Vesturbakkanum. Þeirra á meðal eru fyrirtæki á borð við Motorola, Airbnb, Expedia og Tripadvisor. 

KLP segir það hafa verið auðvelda ákvörðun að leysa hlut sinn úr Motorola, þar sem fyrirtækið útvegi eftirlitsbúnað á hernumdum svæðum. Þá seldi sjóðurinn einnig hluti sína í öðrum fjarskiptafyrirtækjum sem veita þjónustu á Vesturbakkanum. Fimm bankar sem veittu fé til bygginga eða innviðauppbyggingu á hernumdum svæðum voru einnig meðal þeirra fyrirtækja sem losaði sig úr. Alls námu eignir sjóðsins í fyrirtækjum tengdum Vesturbakkanum 275 milljónum norskra króna, jafnvirði um fjögurra milljarða króna.

Seint í síðasta mánuði greindi KLP frá því að sjóðurinn hafi selt hluti sína í hafnar- og flutningafyrirtækinu Adani Ports vegna tengsla þess við herstjórnina í Mjanmar.

Yfir 600 þúsund Ísraelar búa á landtökubyggðum á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem. Byggðirnar eru ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV