Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Samningsbrot ef hermenn verða eftir í Afganistan

05.07.2021 - 05:13
epa08661730 A handout photo made available by Afghanistan State Ministry for Peace shows Afghanistan's Peace Negotiation team pray as they leaves Kabul for the opening ceremony of Intra-Afghan Peace Negotiations that are to be held in Doha, Qatar, at Kabul airport, Afghanistan, 11 September 2020. The United States, Taliban and Afghanistan government delegations officially will start the intra-Afghan negotiations on 12 September 2020.  EPA-EFE/AFGHANISTAN STATE MINISTRY FOR PEACE HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Afganska sendinefndin baðst fyrir áður en hún hélt til Doha í Katar í dag. Mynd: EPA-EFE - Friðarnefnd afgönsku stjórnar
Talibanar segja að erlend ríki verði að standa við að fjarlægja allt sitt herlið úr Afganistan á samþykktum tíma. Fréttastofa BBC hefur þetta eftir Suhail Shaheen, talsmanni Talibana. Fregnir hafa borist af því að um þúsund hermenn NATO-ríkja verði eftir í landinu til þess að vernda alþjóðaflugvöllinn í Kabúl og alþjóðastarf í landinu. 

Shaheen sagði við BBC að það sé brot á Doha-samkomulaginu ef einhverjar herdeildir verða eftir. Talibanar verði þá að ráða ráðum sínum um framhaldið. „Við myndum bregðast við því og lokaákvörðunin yrði tekin af leiðtogum okkar," sagði hann. Diplómatar, almennir erlendir borgarar og félagasamtök yrðu ekki skotmark Talibana, og því þyrfti ekki að verja þau sérstaklega. Tailibanar séu einungis andstæðir erlendri hersetu í Afganistan. 

Hundruð hermanna afganska stjórnarhersins hafa hörfað yfir landamærin norður til Tadjíkistan vegna áhlaups Talibana. Stórir hlutar héraðanna Badakhshan og Takhar eru nú á valdi vígahreyfingarinnar. Að sögn Guardian er um þriðjungur 400 héraða Afganistans nú á valdi Talibana. Þeim hefur gengið illa að ná völdum í héraðshöfuðborgum víða um landið, en umkringja nokkrar þeirra. Þar á meðal borgina Ghazni í austanverðu landinu og Maimana í Faryab-héraði í norðanverðu Afganistan.