Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hafnar því að stafafura sé ágeng tegund

05.07.2021 - 09:27
Skógræktarstjóri segir af og frá að stafafura sé ágeng tegund. Engin ástæða sé til að óttast að útbreiðsla hennar verði stjórnlaus.

Þresti Eysteinssyni skógræktarstjóra misbýður umræða um stafafuru þar sem fullyrt er að hún leggi undir sig land og vaxi stjórnlaust jafnvel eins og lúpína. Vistfræðingur hélt því fram í fréttum RÚV að stafafura gæti orðið til vandræða og kostnaðarsamt að halda aftur af henni.

„Það þarf sko ekki að hafa neinar áhyggjur af stafafurunni. Við höfum í fyrsta lagi rannsóknir sem sýna bæði hver áhrif stafafuru eru á líffræðilega fjölbreytni. Þau áhrif eru afskaplega lítil. Við höfum líka rannsóknir á hvernig hún er að sá sér, hversu hratt, og allar þær rannsóknir sem hafa verið gerðar á því komast að þeirri niðurstöðu að hún sé ekki ágeng. Það er ekki nóg að planta sái sér í næsta nágrenni þess staðar þar sem hún er ræktuð. Það er ekki að vera ágeng. Hér sjáum við algjörlega í hnotskurn hvað er að gerast. Stafafuran eftir 25 ár á staðnum er að sá sér hér út í næsta nágrenni og út á rýrasta landið. Hún til dæmis fer ekki yfir í grasið og ekki meira en örfáa metra frá móðurtrjánum. Þetta er nú öll ágengnin,“ segir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri.

Hann segir að stafafura sé eitt mikilvægasta tréð í íslenskri skógrækt. Hún vaxi fljótt og vel á rýru landi, sé dugleg að binda þar kolefni og framleiða timbur. Það sé út í hött að líkja henni við ágenga lúpínu. „Ágengni er að hún fer í fyrsta lagi mjög hratt, mjög víða og það er erfitt að stjórna henni. Ekkert af því á við um stafafuru. Hún er 20 ára eða meira áður en hún fer að sá sér. Hún sáir sér ekki langt. Bara í næsta vegakant eða í næsta nágrenni við móðurtrén og það er enginn vandi að losna við hana ef það er ásetningur fólks. Bara að klippa hana niður, þá deyr hún. Þannig að þetta er bara furðulegt að fólk skuli halda því fram að stafafura sé ágeng tegund,“ segir Þröstur.