Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjölþjóðleg breiðfylking gegn upplýsingasöfnun

05.07.2021 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Neytendasamtökin eru í hópi 55 samtaka sem skora á Evrópusambandið og stjórnvöld í Bandaríkjunum að banna auglýsingar sem byggðar eru á söfnun persónuupplýsinga. Slík upplýsingasöfnun geti grafið undan lýðræðinu.

Neytendasamtökin og á sjötta tug samtaka á sviði neytendaverndar, mannréttinda, fræðimanna og fleiri í Evrópu og Bandaríkjunum standa að baki áskoruninni til Evrópusambandsins og Bandaríkjastjórnar að banna auglýsingar sem eru persónusniðnar að hverjum neytanda. Upplýsingum er safnað um neytandann  eftir að hann hefur samþykkt vafrakökur eða cookies - við það að fara inn á samfélagsmiðla og netsíður.

„Þetta eru vissulega háleit markmið, þetta er náttúrlega multi billjón dollara iðnaður, en einhvers staðar verður að byrja og við þetta verður ekki búið öllu lengur. Það hefur sýnt sig að persónusniðnar auglýsingar virka ekkert betur heldur en gamaldags auglýsingar. Og það hefur líka sýnt sig í rannsókn norsku neytendasamtakanna að hvorki fyrirtækjum né neytendum hugnast svona persónunjósnir,“ segir Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna.

Hann segir að svona barátta verði ekki háð nema með fjölþjóðlegri breiðfylkingu. Neytendasamtökin beindu erindi sínu til dómsmálaráðuneytisins og sendu það einnig til Persónuverndar. Breki segir að málinu verði fylgt eftir. Hann segir málið víðtækara en svo að einungis sé verið að beina tilteknum varningi að fólki eftir persónulegum áhuga þess eða smekk.

„Auk þess þá hafa þessar upplýsingar verið notaðar í andlýðræðislegum tilgangi, að reyna að hafa áhrif á úrslit kosninga, til að reyna að letja fólk til þátttöku í kosningum og svo framvegis. Þannig að það eru þarna ýmsar skuggahliðar á þessum málum sem ekki verða liðnar.“

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV