Fæðingum á Akureyri fjölgar um þriðjung

Mynd með færslu
 Mynd: Unsplash

Fæðingum á Akureyri fjölgar um þriðjung

05.07.2021 - 15:48

Höfundar

Mikið álag hefur verið á fæðingardeildinni á Sjúkrahúsinu á Akureyri það sem af er ári. Alls 234 börn hafa fæðst á sjúkrahúsinu, 56 fleiri en á sama tíma í fyrra.

 

Ingibjörg Jónsdóttir yfirljósmóðir segir aukninguna vera rúmlega 30 prósent frá síðasta ári. Hún segist eiga von á mörgum fæðingum það sem eftir lifir sumars og vel fram á haustið. Það er erfitt að finna einhverja skýringu en hún segir að 9 mánuðum eftir fyrstu bylgju kórónuveirunnar hafi fæðingum fjölgað. Sagan endurtók sig eftir aðra bylgjuna en þrátt fyrir að faraldurinn sé á undanhaldi dregur ekkert úr fæðingum. 

Í fyrra fæddust 392 börn á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Ingibjörg segir álagið núna meira en áður. Ljósmæður á Akureyri hafi samþykkt að breyta sumarfríum sínum og bætt á sig aukavöktum. Færri eru á vöktum en oft áður og því er meira álag á þeim sem eru á vaktinni. Ljósmæður frá Húsavík, Sauðárkróki og Reykjavík hafa hlaupið undir bagga. Þá eru dæmi um að ljósmæður frá Reykjavík sem hafi verið í sumarfríi á Akureyri hafi tekið vaktir. 

Ingibjörg segir að ljósmóðurstarfið hafi breyst mikið á nokkrum árum. Fleiri konur greinast með alls konar áhættuþætti tengda þungun. Fleiri fara í áhættumæðravernd. Hún segir mikla aukningu í meðgöngusykursýki sem kalli á meira eftirlit. Andleg vanlíðan er meiri en greind var fyrir nokkrum árum og kvíðinn er meiri.