„Erfitt að skilja hvers vegna hún púkkaði upp á mig“

Mynd: Valur Gunnarsson / Aðsend

„Erfitt að skilja hvers vegna hún púkkaði upp á mig“

05.07.2021 - 09:00

Höfundar

„Aldrei láta rússneska konu bíða,“ er ein af þeim lexíum sem stormasamt ástarsamband Vals Gunnarssonar og hinnar dularfullu Juliu Sesar kenndi honum. Árum saman skiptust þau á ástarbréfum en alltaf þegar þau hittust fölnaði ástin, en blossaði svo aftur í ný þegar þau voru í sundur.

Sum ástarsambönd endast þar til dauðinn stíar elskendum í sundur en önnur kvikna og fuðra upp í einni svipan. Enn önnur eru eins og jójó sem púlsa upp og niður, fram og til baka, af eða á. Jójó-sambönd verða gjarnan til hjá skuldbindingarfælnu fólki eða pörum sem eiga betur saman á nóttunni en daginn. Valur Gunnarsson rithöfundur átti í heitu ástarsambandi sem var sem jójó sem púlsaði landa á milli. Hann sagði frá sambandi sínu og hinnar rússnesku Juliu Sesar í Ástarsögum á Rás 1. Hann hefur áður sagt frá ást sinni og Juliu, meðal annars í bókunum Síðasti elskhuginn og Bjarmalönd.

Ómótstæðileg fyrir ungan sagnfræðinema

Hann sá Juliu fyrst vorið 1999 í Helsinki þar sem þau bæði námu Rússlandsfræði. „Hún var klárlega langsætasta stelpan í bekknum, með ofboðslega merkilegt útlit sem maður hefur ekki séð áður. Blanda af slavneskum og latneskum áhrifum.“

Móðir Juliu er rússnesk en faðir hennar var frá Ekvador. Þegar Julia var sautján ára kynntist móðir hennar finnskum tónlistamanni og flutti með hana til Helsinki. Hún var ekki skírð í höfuðið á Rómarkeisara; Julia er afar algengt nafn í Rússlandi en faðir hennar hét Sesar sem er latneskt nafn, og hún var kennd við hann eins og venja er í Rússlandi. „En fyrir tilviljun örlaganna varð hún auðvitað ómótstæðileg fyrir ungan sagnfræðinema, eins og allt í hennar fari,“ segir Valur.

Er við það að gefast upp

Valur telur í sig kjark til að tala við Juliu og samtalið varð að löngum göngutúr sem endaði á að hún þáði boð hans um að kíkja í bíó. Bíóferðirnar og göngutúrarnir urðu fleiri, þau kynntu sér borgina og bíóin fram á vor en þá var dvöl Vals í Helsinki lokið. Hann fór til Íslands og Julia til Rússlands og héldu þau því sína leið án þess að nokkuð hefði gerst. Á Íslandi tók hann upp plötu með Leonard Cohen-lögum, sem hann segir hafa sett sig á hausinn og enginn hafi keypt. „Ég hætti í skólanum og fer að vinna sem bréfberi, sem er ofboðslega hægfara leið til að borga upp skuldir,“ rifjar Valur upp. Þetta var snjóþyngsti veturinn í fjörtíu ár. „Ég á engan pening, það er alltaf kalt og ég er við það að gefast upp.“

Aldrei láta rússneska konu bíða

Einn daginn rak hann augu í tölvupóst frá Juliu sem spurði hvort hann væri réttur Valur, sem fór með henni í göngutúra í Helsinki. Valur setti sér það markmið að komast sem fyrst aftur út til að hitta Juliu. „Ég fer að undirbúa Finnlandsför og við höldum áfram að skrifast á allan tímann.“

Þegar til Finnlands var komið fékk hann vinnu í vodkaverksmiðju í eins og hálfs tíma fjarlægð frá Helsinki. Hann gerði sér ferð þangað en mætti þremur mínútum of seint á lestarstöðina þar sem Julia beið hans. Hún tók ekki vel í það. „Hún kemur og segir: Þú ert búinn að vera. Þá lærði ég að maður á aldrei að láta rússneska konu bíða, ekki einu sinni í eina mínútu, þó þær láti mann miskunnarlaust gera það oft klukkutímum saman,“ segir Valur og hlær.

Mynd með færslu
 Mynd: Valur Gunnarsson - Aðsend
Valur kolféll fyrir Juliu sem var sætasta stelpan í bekknum

Hafði aldrei farið á stefnumót fyrr

Þau héldu samt áfram að hittast og fyrr en varði voru þau farin að kyssast en ekkert meira en það. „Eftir á veit ég ekki alveg hvers vegna hlutirnir þróuðust svona hægt. Kannski fannst mér það rómantískt á sínum tíma, en ég held það hafi að stórum hluta verið óframfærni af minni hálfu.“

Hann var orðinn vanur því að fólk drægi sig helst saman rétt áður en skemmtistöðum lokaði og hann hafði aldrei farið á deit áður, „hvað þá annað og hvað þá með rússneskri konur sem var úr öðrum heimi aftur. Allt í Rússlandi er eins og í nítjándu aldar skáldsögu, allt í föstum skorðum hvernig sá dans er stiginn.“ En til að taka af allan vafa ítrekar Valur: „Þetta var óframfærni af minni hálfu en ekki áhugaleysi.“ Sumrinu lauk og Valur hélt heim með þann ásetning skýran að komast sem fyrst aftur til Finnlands. „Ég fæ vinnu hjá Aktu Taktu við að standa á grillinu og láta mig dreyma um Juliu Sessr.“

Vel lesin og kvenleg með marglitar sígarettur

Julia var frábrugðin öllum öðrum konum samkvæmt Vali, þótt hún hefði svip með Jennifer Lopez. Hann lýsir henni sem kvenlegri í fasi, hún reykti marglitar sígarettur og hafði mikla þekkingu á menningu. „Mér fannst það þá mjög merkilegt, komandi frá Rússlandi, en það er að hluta því í Rússlandi eru allir látnir lesa Dostojevski og Tolstoy. Krakkar lesa alla þessa doðranta og kunna á þeim skil en halda áfram að lesa,“ segir Valur. „Á sama tíma fannst mér hún hlusta á skelfilega popptónlist líka og það er engin mótsögn í því, sérstaklega á þessum tíma.“

Var forvitin um Val og kenndi honum rússneska siði

Valur heillaðist af því hvað hún væri vel lesin en líka hvernig hún kom úr öðrum heimi, uppalin í Sovétríkjunum. Í hvert sinn sem þau gengu fram hjá einhverju, sem í smástund var á milli þeirra, þá áttu þau að segja: privyet samkvæmt rússneskri hefð því annars væri hætta á að þau færu að rífast; „því það sem kom á milli okkar væri tákn fyrir eitthvað sem kæmi á milli okkar. Og alltaf þegar við fórum af stað í ferðalag átti að setjast niður í eina mínútu og þegja. Alls konar siðir og venjur. Allt saman var þetta ómótstæðilegt.“ Valur heillaðist líka af forvitni Juliu og hún var dugleg að spyrja hann spurninga um hvað honum fyndist um hitt og þetta.

Fór í fýlu ef hann setti upp rangan svip

Eftir áramót fór Valur aftur til Helsinki í háskólann og þá þróuðust hlutirnir hratt. Þau sváfu loks saman og sambandið byrjaði af fullum krafti, en um leið flæktist það. „Eins og ég átti eftir að komast að síðar þá er það svolítið þannig að þegar þú ert byrjaður í sambandi með rússneskri konu þá berð þú ábyrgð á öllu. Það er þér að kenna að sambandið byrjaði og þú átt að taka allar ákvarðanir,“ segir Valur.

Hún hafi einnig átt það til að fara í fýlu þegar Valur setti upp vitlausan svip, sem hann var ekki meðvitaður um að bera og meinti ekkert með. „Þetta fannst mér rosalega skrýtið, en var tiltölulega algengt því Rússar á dögum Sovétríkjanna hafa lært að treysta ekki neinu sem neinn segir, svo þeir eru alltaf að lesa í svipbrigði fólks og dæma út frá því. Maður þarf alltaf að vera sjálfsöruggur og brosandi í framan.“

Köstuðu gjöfum frá hvoru öðru í síkið

Vorinu 2001 lýsir Valur sem dásamlegu því þau voru nánari en nokkru sinni, en það var líka erfitt. Tímabilinu lýsir hann í skáldsögu sinni Konungur norðursins sem hann segir að hafi ekki gengið vel, ekki frekar en ástarsambandið.

Rétt áður en Valur fór heim til Íslands var þess farið á leit við hann að hann skrifaði leikrit. Hann skrifaði það, hélt til Íslands og þaðan til Skotlands þar sem hann starfaði sem dyravörður. Þegar frumsýning leikritstins fór fram á menningarhátíð í Helsinki fór hann þangað til að vera viðstaddur og hitti þá Juliu, en á þeim tíma var Valur byrjaður að hitta norður-írska konu í Skotlandi. Þangað hélt hann eftir frumsýninguna og loks heim til Íslands þar sem hann kláraði námið. „Þá fæ ég aftur bréf.“ Bréfið var langt og mikið og Julia tjáði Vali ást sína og sagði að hann væri sá sem væri alltaf til staðar fyrir hana.

Valur hélt aftur til Finnlands og hitti Juliu en brá við að komast að því að hún hefði verið að hitta aðra skömmu áður. „Ég tók því ekkert voðalega vel, þessi mikla rómantík var kannski svolítið einhliða.“

En Valur fyrirgaf og elti Juliu til Rússlands og hann lýsir því sem stærsta skrefinu sem þau tóku í sambandinu. Í Pétursborg dvöldu þau í nokkrar vikur þar sem þau skoðuðu hallir og síki, en sambandinu lauk þar formlega við Vetrarsíkið sem Valur segir rómantískasta staðinn í Pétursborg. Þau luku ástarsambandi sínu á táknrænan hátt. „Ég fleygi kveikjara sem hún gefur mér í jólagjöf og hún hring, sem var ekki trúlofunarhringur en ég setti á puttann hennar, ofan í vetrarsíkið.“

Þóknaðist henni hvorki í útliti né hegðun

Hvað olli sambandsslitunum segir Valur erfitt að segja en þau voru byrjuð að rífast mikið. „Um hvað er ekki alltaf ljóst, ég get í sjálfu sér ekki skilið það í seinni tíð, en ég á erfiðara með að skilja hvað hún var að púkka upp á mig svona lengi,“ segir Valur sem viðurkennir að hafa upplifað sig aðeins utan gátta í samfélaginu. Hann skildi ekki tungumálið og upplifði sig sem bagga á herðum Juliu. „Svo eru oft hlutir eins og að Rússar eru í fáránlega góðu formi, allir rosalega grannir sem ég var ekki, og það var eitthvað sem ég þurfti að laga. Það var eitt og annað sem gerði það að verkum að ég var ekki alveg að þóknast henni, hvorki í útliti né hegðun.“

Ákváðu enn einu sinni að blása sambandið af

Sumarið 2002 hélt hann heim til Íslands og þaðan í ritlistarnám í Belfast. Það var ekki fyrr en fimm árum síðar sem Valur og Julia mæltu sér mót aftur, eftir stopul bréfasamskipti.

Valur hélt til Moskvu þar sem ein lokatilraun til að eiga í ástarsambandi var gerð. „Það var allt á móti okkur. Það var fáránlega heitt, rúmlega 40 stiga hiti svo það er varla hægt að gera neitt yfir höfuð. Gangstéttirnar bráðnuðu undir skónum,“ rifjar Valur upp. Auk þess hafði Julia farið í misheppnaða meðferð á snyrtistofu sem varð til þess að þau gátu ekki sofið saman. „Við ákváðum á einhverjum tímapunkti að blása þetta af. Þetta var ekki að gera sig.“

Var byrjuð með konu og vildi aðstoð

Aftur hélt Valur heim en fór aftur til Helsinki 2014 þar sem hann hitti Juliu, sem gamla vinkonu. Julia dró Val á barinn og tilkynnti honum eftir fyrsta bjórinn að hún væri komin í samband með konu. Hún spurði hvort hann gæti hjálpað þeim að eignast barn. „Þetta kemur svolítið á óvart en maður getur aldrei dæmt fyrir fram,“ segir Valur sem tók ágætlega í hugmyndina sem aldrei komst þó í framkvæmt og nú er það orðið of seint því Julia og konan eru hættar saman. „Þetta er eiginlega ástarsaga án hamingjusams endis fyrir nokkurn,“ segir hann.

Fjarlægðin gerir fjöllin blá

Valur segir að þó Julia sé fyrsta ástin hans sé hún ekki endilega sú stóra. „Ég hef grátið annað meira því ég er ekki endilega viss um að, undir betri kringumstæðum, hefði þetta getað gengið. Mér finnst meira að segja líklegt að það hefði ekki enst hefðum við verið saman á sama stað á sama tíma,“ segir hann. „Fjarlægðin gerir fjöllin blá og ég held við hefðum bæði oft búið til væntingar sem ekki var hægt að standa undir.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við Val Gunnarsson í Ástarsögum á Rás 1. Hér er hægt að hlýða á viðtalið í heild sinni í spilara RÚV.

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Sendi peninga til elskhugans sem reyndist ekki vera til

Menningarefni

„Ég var að kveðja þetta tímabil í lífi mínu“

Menningarefni

Kötturinn fann á sér að Jóhann kæmi ekki aftur heim