Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Enn ein blauta tuskan í andlitið frá ríkinu

Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
María Sjöfn Árnadóttir, ein fjögurra kvenna sem er með ofbeldismál fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu fékk alvarlegt taugaáfall, ekki vegna heimilisofbeldis, heldur vegna þess að mál hennar fyrndist hjá lögreglu. Viðbótarfrestur ríkisins til að leita sátta við hana rann út um mánaðamótin. Ofbeldismál kvennanna eru fyrir dómstólnum því að þau voru felld niður hér heima.

María Sjöfn segir að það hafi verið eins og að fá blauta tusku í andlitið þegar í ljós kom að ríkið myndi ekki nota frestinn. Þessi vonbrigði eru langt í frá þau einu sem María Sjöfn hefur lent í síðan hún kærði heimilisofbeldi árið 2017. 

Frestur rann út án þess að leitað væri sátta

Dómstóllinn hefur gefið ríkinu frest fram í september til að svara spurningum vegna málanna. Jafnframt gaf hann ríkinu frest til að leita sátta við konurnar fjórar. Ríkið ákvað að leita ekki sátta hjá þremur kvennanna en bað um viðbótarfrest til að leita sátta við Maríu Sjöfn. 

„Sá frestur var að renna út núna um mánaðamótin og því miður þá fengum við ekki afstöðu um mögulega sátt,“ segir Védís Eva Guðmundsdóttir lögmaður hjá lögfræðistofunni Rétti.

Spyr um vanvirðandi meðferð ríkisins

Mannréttindadómstóllinn spurði ríkið sérstaklega út í mál Maríu Sjafnar því heimilisofbeldiskæra hennar fyrndist hjá lögreglunni.

„Og [dómstóllinn] spyr hvort að íslenska ríkið telji að þetta samræmist mannréttindaákvæðum sem að kveða á um bann við vanvirðandi meðferð í garð einstaklinga af hálfu ríkisins. Og líka um það hvort að íslenska ríkið hafi virt rétt hennar til friðhelgis einkalífs og í rauninni náð að vernda hana á sínu heimili,“ segir Védís Eva.

Hræðileg framkoma ríkis gagnvart borgara

„Fyrir mér er þetta bara eins og blaut tuska í andlitið, svona enn ein blauta tuskan sem hefur verið í þessu máli frá upphafi,“ segir María Sjöfn.

Ætla má að ríkislögmaður hafi meðal annars verið að bíða eftir afstöðu dómsmálaráðuneytisins í málinu. María Sjöfn greindi dómsmálaráðherra frá málsmeðferðinni í upphafi árs og frá lagabreytingum sem þyrfti að gera svo þetta kæmi ekki fyrir aftur. 

„Svo hafa þeir þennan þriggja mánaða frest og biðja um aukafrest. Og eru samt ekki tilbúnir með afstöðu þannig að mér finnst þeir bara vera að gefa mér fingurinn. Mér finnst þetta bara alveg hræðileg framkoma framkvæmdavalds og ríkis gagnvart borgara.“

Bara eins og málið hafi ekki verið rannsakað

María Sjöfn kærði tvær líkamsárásir og eitt hótunarbrot. Hún var með mörg sönnunargögn meðal annars játningu, bein og óbein vitni og áverkavottorð. Lögregla felldi málið niður og hún kærði niðurfellinguna til ríkissaksóknara.  

„Ríkissaksóknari í raun og veru rekur í afstöðu sinni, það kemur svona kemur skýrt fram að hann hefði viljað ákæra í öllum kæruliðum. Og ég fæ svona fyrst svona tilfinningu að málið mitt hafi verið rannsakað þegar ríkissaksóknari tekur þessa afstöðu. Það er bara eins og að þetta hafi ekki verið rannsakað.“

Fékk taugaáfall og þurfti að hætta í meistaranámi

Það var hins vegar bara hægt að ákæra fyrir hótunarbrotið. Það er nú fyrir Landsrétti. Ekki var hægt að gefa út ákærur fyrir alvarlegri brotin, líkamsárásirnar, því þau voru fyrnd. 

„Ég fékk alvarlegt taugaáfall eftir niðurfellinguna og var frá vinnu lengi og var ráðlagt þá að fara í EMDR áfallastreituröskunarmeðferð og var greind með langvarandi áfallastreitu. Ég þurfti að hætta í meistaranáminu mínu í lögfræði.“

Þess utan er kostnaður töluverður bæði við málaferlin vegna hótunarbrotsins og líka til að halda heilsu. 

„Það hef ég þurft til þess að geta meðfært mig til að komast á þennan stað til þess að reyna að berjast fyrir framtíðarbrotaþolendur.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Védís Eva Guðmundsdóttir.