Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Sérstaklega slæm helgi” á bráðamóttöku Landspítala

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Það var mjög mikið að gera á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi um helgina. Um hádegi í dag, sunnudag, höfðu 117 komur verið skráðar á móttökuna á einum sólarhring. Deildarstjórinn segir síðustu tvær nætur hafa verið óvenju erilsamar, sérstaklega vegna mikillar ölvunar. 

Áverkar í andliti og brotnar tennur

„Við getum alveg tekið undir það með lögreglunni og slökkviliðinu að helgin var mjög annasöm” segir Helga Rósa Másdóttir, deildarstjóri bráðamóttökunar. „Það var mikil ölvun, mikið um slys og líkamsárásir.”

Talsvert var um rafskútuslys, en fimm slík voru skráð þar sem fólk hlaut áverka í andliti og braut í sér tennurnar. Þá var mikið um andlega vanlíðan hjá fólki. 

„Það er búið að vera mjög rólegt síðasta eina og hálfa árið. En þessar síðustu tvær nætur hafa verið alveg sérstaklega slæmar. Við erum enn að vinda ofan af nóttinni.”

„Það er eins og spennustigið sé mjög hátt.”

Engar takmarkanir og útborgunardagur

Öllum samkomutakmörkunum var aflétt á miðnætti föstudagsins fyrir rúmri viku síðan. Mikill fjöldi sótti skemmtistaði í miðbænum þá helgina, en ekki nærri því eins margir og nú um helgina. Enda var útborgunardagur í millitíðinni. 

Bjarni Ingimarsson, aðstoðarvarðstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, man ekki eftir jafn annasamri nótt í Reykjavík og þeirri síðustu. Mikil ölvun, líkamsárásir, slys og óhöpp voru helstu verkefnin. Næturvaktin var eins og stórviðburður væri í bænum, sagði í Facebook-færslu slökkviliðsin í morgun um verkefni næturinnar. Slökkviliðið fór í 122 sjúkraflutninga, þar af voru 67 á næturvaktinni, flest vegna atvika í miðbænum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði sömuleiðis í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt. Flestir enduðu á bráðamóttökunni, en þangað kom líka fólk í fylgd lögreglu og á eigin vegum.