„Mörgum árum síðar þorði ég að segja það upphátt“

Mynd: Óskar Kristinn Vignisson / Facebook

„Mörgum árum síðar þorði ég að segja það upphátt“

04.07.2021 - 10:00

Höfundar

Að verða leikstjóri og komast með útskriftarverkefnið sitt á Cannes var fjarlægur draumur sem Grindvíkingurinn Óskar Kristinn Vignisson þorði aldrei að vona að yrði að veruleika. Stuttmyndin Frie Mænd í hans leikstjórn verður þó sýnd á hátíðinni í júlí og til stendur að gera kvikmynd í fullri lengd.

Á dögunum var tilkynnt að stuttmyndin Frie mænd, eða Frjálsir menn, eftir Óskar Kristinn Vignisson hafi verið valin til þátttöku í Cinéfondation-flokknum á virtu kvikmyndahátíðinni í Cannes í júlí. Frie mænd er gamanmynd um tvo vini sem starfa í fiskvinnslu og lenda í vandræðum sem neyða þá til að endurskoða hugtakið frelsi og merkingu þess. Myndin var valin úr yfir þúsund umsóknum frá öllum heimshornum og er þetta í fyrsta sinn í átján ár sem nemandi úr danska kvikmyndaskólanum kemst inn á þessa hátíð með útskriftarverkefnið sitt. Óskar Kristinn, sem er 32 ára Grindvíkingur búsettur í Danmörku, kíkti í Lestina og sagði frá myndinni og tilurð hennar.

„Mig dreymdi ekki einu sinni um það“

„Ég var ekki einn af þeim sem vissi að ég ætlaði að verða leikstjóri tólf ára,“ viðurkennir Óskar. Ungur að árum byrjaði hann þó að taka upp myndskeið á heimilismyndavélina, en í hans huga var það að gera sjálfur bíómyndir framtíð í stjörnufjarlægð. „Mig dreymdi ekki einu sinni um það.“ Hann dáði þó kvikmyndir og varði miklum tíma á vídjó-leigunni Myndseli í Grindavík og leigði sér spólur.

Kolféll fyrir Nóa albinóa

Óskar stundaði nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja á listnámsbraut þar sem hann kynntist kennara að nafni Íris, sem varð mikill örlagavaldur í lífi hans. Hún benti honum á þann möguleika að læra í myndlistarskóla Reykjavíkur og Óskar sótti um. Það var svo í kringum sautján ára aldurinn sem Óskar sá kvikmyndina Nóa albinóa sem hafði mikil áhrif á hann. „Ég hafði aldrei áður séð kvikmynd sem var svona spes og ég tengdi við,“ segir Óskar. Hann las viðtal við Dag Kára, leikstjóra myndarinnar, þar sem hann útskýrði að kvikmyndin væri í raun sú listrgein sem sameinaði allar aðrar. Óskar hafði reynslu af bæði myndlist og tónlist og heillaðist af hugmyndinni um að sameina það tvennt. „Mér fannst þetta ótrúlega spennandi. Mörgum árum síðar þorði ég að segja það upphátt, að þetta væri það sem mig langaði að gera.“

Fjögurra mánaða umsóknarferli

Hann tók stökkið og sótti um í Danska Kvikmyndaskólanum eftir myndlistarnámið, sama skóla og Dagur Kári lærði í. En það er enginn hægðarleikur að komast þar inn. Það gekk þó í annarri tilraun eftir langt og erfitt inntökuferli í fimm skrefum. Í því næst síðasta varði hann viku með hinum sem komin voru jafn langt í ferlinu. „Þá er manni bara hent inn og á að skila verkefnum eftir einhverja klukkutíma, og vinnur undir rosalega mikilli presu,“ segir hann. Ferlið endaði með því að Óskar var látinn leikstýra fyrir framan dómnefnd tveimur leikurum í senu sem hann fékk hálftíma fyrr í hendurnar. Fjórum mánuðum eftir umsókn var honum tilkynnt að hann væri samþykktur.

Stutt sumarfrí og langir dagar

Námið hefur verið gefandi en hann kveðst aldrei hafa gert sér í hugarlund hve krefjandi það yrði. „Þegar ég komst inn í skólann var ég að vinna í Listaháskólanum og Fríða rektor kom til mín og óskaði mér til hamingju, en sagði að þetta myndi verða erfitt,“ rifjar Óskar upp. „Ég vissi ekki almennilega hvað hún ætti við.“ Óskar var þó fljótur að átta sig á því. Hann hafi náð góðum árangri í skólanum og pressan var mikil. „Svo er þetta bara pressa sem maður þarf að fara í gegnum í langan tíma. Sumarfríið er mjög stutt og maður er allan sólarhringinn í skólanum.“

Fjarlægur draumur að komast inn

Óskari fannst gaman að skrifa myndina og hann naut þess að kynnast karakterunum. Að skrifa kómedíu vakti þó ugg í brjósti hans. „Þú gerir samning við áhorfendur um að þeir eigi að hafa gaman að þessu. Það eitt og sér hræðir mann, ef það klikkar þá klikkar það svo stórt,“ segir Óskar sem tókst sannarlega að skemmta, að minnsta kosti dómnefnd Cannes-kvikmyndahátíðarinnar sem hleypti mynd hans í gegnum nálaraugað. „Það er ótrúlega gaman að vera á Cannes og ég er þakklátur fyrir að hafa verið pikkaður þarna út. Það opnar á möguleika og tækifæri og maður fær stækkunargler á sig,“ segir hann. „Þetta er líka bara fjarlægur draumur að komast inn á þessa hátíð, þar sem svo margir hafa byrjað sinn feril. Það er algjörlega þessi stökkpallur.“

Óskar er með mörg járn í eldinum og vinnur meðal annars að því að endurgera Frie mænd í fullri lengd, með nýja sögu en svipaða karaktera. „Svo eru tvö önnur verkefni í pípunum sem eru ekki eins langt komin í þróun.“

Þegar hann er spurður að því hvort Íslendingar fái að sjá myndina í bráð segir hann: „Það ætla ég rétt að vona. Það verður vonandi hægt að sýna hana á Íslandi og hver veit hvað gerist svo.“

Kristján Guðjónsson ræddi við Óskar Kristin Vignisson í Lestinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Hannes og Auddi í aðalkeppni virtrar kvikmyndahátíðar