Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nú er það glært og gagnsætt í Sorpu

03.07.2021 - 19:33
Mynd: Bragi Valgeirsson / Skjáskot
Svarti ruslapokinn var kvaddur í endurvinnslustöðvum Sorpu um mánaðamótin og sá glæri er tekinn við. Tilgangurinn er að endurvinna meira og urða minna og viðskiptavinir taka vel í þessa nýbreytni.

„Þetta auðveldar starfsfólki okkar að leiðbeina viðskiptavinum um hvert á að fara með úrganginn,“ segir Gunnar Dofri Ólafsson samskiptastjóri Sorpu. Hann segir að þetta sé gert til að minnka magn úrgangs sem fer í urðunargám, en um helmingur þess sem þangað hefur verið látið gæti farið í endurvinnslu.  „Og þetta er eitthvað sem við þurfum að breyta,“ segir Gunnar Dofri.

Það er til mikils að vinna, því fyrir utan umhverfisáhrifin, þá fylgir talsverður kostnaður því að urða sorp, en endurvinnsla skapar aftur á móti verðmæti. Og þó að svörtu pokarnir hafi nú verið formlega kvaddir, slæðist einn og einn enn inn á endurvinnslustöðvarnar.

„Við höfum alveg þolinmæði fyrir þessu svona á meðan það er enn trúverðugt að tíu poka rúllan sé enn að klárast. En óþol okkar fyrir þessu mun fara stigvaxandi eftir því sem lengra líður frá 1. júlí,“ segir Gunnar Dofri.

Þórður Waldorf var á endurvinnslustöð Sorpu í morgun og var með sorp sitt í glærum poka. „Það er búið að vera að auglýsa þetta þannig að maður þorir ekki öðru,“ sagði Þórður. „Maður er að verða meira meðvitaður um þetta heldur en áður.“

Í sama streng tók Heimir Örn Herbertsson sem einnig var á endurvinnslustöð Sorpu í morgun. „Er þetta ekki orðin skylda núna, að setja það í glæra poka,  sem þarf að koma hingað? Þá gerir maður bara eins og manni er sagt,“ sagði Heimir.

„Við vitum að þetta kemur til með að taka tíma, þetta er ekki bara tekið í einum rykk,“ segir Guðmundur Helgi Eyvindsson vaktstjóri hjá Sorpu í Ánanaustum.  Hann segir fólk vera jákvætt og margir hafi byrjað að koma með sorp sitt á stöðina fyrir mörgum vikum síðan. „Fólk er að henda alls konar dóti í svörtum pokum en þegar við sjáum hvað er í pokunum þá verður þetta miklu skilvirkara,“ segir Guðmundur Helgi. „Þetta verður sýnilegra, þetta ætti bara að verða betra fyrir alla.“