Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Nóg af mörkum í sólinni

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Nóg af mörkum í sólinni

03.07.2021 - 15:51
Tveir leikir fóru fram í efstu deild karla í fótbolta í dag. Í Kópavogi vann Breiðablik öruggan 4-0 sigur á nýliðum Leiknis. Í Garðabæ var spennan öllu meiri. Þar náðu Keflvíkingar að komast í 3-0 áður en Stjarnan náði að minnka muninn í eitt mark. Mörkin urðu því ekki fleiri og gestirnir unnu því góðan sigur.

Sólin skein á leikmenn Breiðabliks og Leiknis á Kópavogsvelli í dag. Bæði lið léku án lykilmanna í dag en hjá heimamönnum var Árni Vilhjálmsson utan hóps vegna meiðsla og Leiknir var án Sævars Atla Magnússonar sem er tæpur og byrjaði því á bekknum í dag. 

Fyrsta mark leiksins kom strax á 7. mínútu. Breiðablik fékk þá hornspyrnu og eftir smá barning í teignum barst boltinn til Kristins Steindórssonar sem fékk nægan tíma til að snúa sér við og koma boltanum í netið. Strax í næstu sókn fékk Leiknir ákjósanlegt færi til að jafna. Manga Escobar slapp þá í gegn og lék á Anton Ara í marki Breiðabliks. Escobar þurfti aðeins að renna boltanum í netið úr þröngri stöðu en Blikar náðu að bjarga á línu. 

Leiknismenn héldu áfram að sækja að marki Breiðabliks og liðið fékk nokkur fín færi til að skora. Þá vildu Leiknismenn einnig fá vítaspyrnu á 25. mínútu en þá virtist Escobar vera ýtt í jörðina í þann mund sem hann var að komast í gott færi. Í stað þess að Leiknir fengi víti komust Blikar í sókn og fengu hornspyrnu. Upp úr horninu kom annað mark þeirra. Viktor Örn Margeirsson skoraði þá af stuttu færi eftir mikið klafs í teignum. Mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleik og Blikar því 2-0 yfir í hálfleik. 

Strax í upphafi síðari hálfleiks varð Leiknir fyrir blóðtöku þegar markvörðurinn Guy Smit þurfti að fara af velli vegna meiðsla. Breiðablik var betra liðið í seinni hálfleik og var mun líklegra liðið til að bæta við mörkum. Pressa Breiðabliks hélt áfram og á 73. mínútu skoraði Gísli Eyjólfsson þriðja mark Breiðabliks eftir fallega sókn. Gísli var aftur á ferðinni þremur mínútum síðar þegar hann afgreiddi boltann í netið af stuttu færi eftir góðan undirbúning Kristins Steindórssonar. Þetta reyndist vera lokamark leiksins og Breiðablik því með öruggan 4-0 sigur á heimavelli. 

Háspenna í Garðabæ

Í Garðabæ tóku heimamenn í Stjörnunni á móti Keflavík. Stjarnan hafði unnið þrjá síðustu deildarleiki og hefði getað komist í 5. sæti deildarinnar með sigri. Keflavík var í 10. sæti fyrir leik dagsins en þar sem deildin er afar jöfn átti liðið möguleika á að komast upp fyrir Stjörnuna með sigri. 

Stjarnan byrjaði betur og strax í upphafi leiks átti Emil Atlason þrumuskot í slá. Eftir að Stjarnan hafði verið í nánast stanslausri sókn í 15. mínútur kom loks fyrsta markið. En það voru þó ekki heimamenn sem skoruðu. Joey Gibbs skoraði þá fyrir Keflavík með þeirra fyrsta skoti í leiknum. 

Eftir markið hélt pressa Stjörnunnar áfram en Keflavík sýndi afar agaðan varnarleik og liðið stóð pressu heimamanna af sér. Hægt og bítandi náðu gestirnir að vinna sig betur inn í leikinn og á 38. mínútu skoraði Joey Gibbs aftur. Boltinn barst þá til hans eftir darraðardans í teignum í kjölfar hornspyrnu. Staðan í hálfleik var því 2-0 fyrir Keflavík.

Ekki þurfti að bíða lengi eftir fyrsta marki seinni hálfleiks. Það kom á 48. mínútu þegar Nacho Heras stangaði boltann í netið eftir hornspyrnu og staðan orðin 3-0 fyrir Keflavík. Áfram héldu gestirnir að sækja og oft munaði litlu að þeir næðu að skora fjórða mark sitt. En á 57. mínútu náði Hilmar Árni Halldórsson fínum spretti inn í teig Keflvíkinga þar sem brotið var á honum og víti dæmt. Hilmar Árni tók vítið sjálfur og skoraði örugglega. 

Spenna færðist í leikinn á 69. mínútu þegar Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði fyrir Stjörnuna og staðan því orðin 3-2. Þrátt fyrir talsverða pressu á lokamínútunum náði Stjarnan ekki að jafna og Keflavík með mikilvægan útisigur.