Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þetta eru mini-móðuharðindi“

Mynd: Bragi Valgeirsson / Skjáskot
Bláleit gosmóða blönduð þokulofti lá yfir suðvesturhluta landsins í dag. Hún innihélt brennisteinssýrudropa og voru viðkvæmir hvattir til að halda sig innandyra.

Móðuna lagði frá gosstöðvunum í Geldingadölum og hún verður til þegar brennisteinsdíoxíð, ýmis gös og agnir komast í tæri við sólarljós. Í móðunni er mengun sem hefur umbreyst og greinist ekki með hefðbundnum mælingum.

„Þetta er í rauninni gosmengun frá Geldingadölum sem hefur verið á smá þvælingi,“ segir Svava S. Steinarsdóttir heilbrigðisfulltrúi hjá Reykjavíkurborg. „Það hafa orðið efnahvörf í gosmekkinum og það hafa myndast brennisteinssambönd og brennisteinssýra og önnur súlfat-efnasambönd.“

Svava segir að mengunin mælist sem svifryk í loftgæðamælum, ekki sem  hefðbundin gasmengun. „Þetta getur valdið ertingu í öndunarfærum, sérstaklega hjá þeim sem eru viðkvæmir fyrir og með astma, þeir geta sérstaklega fundið fyrir einkennum á svona dögum.

Mengun sem þessi kallast blámóða og orsakaði Móðuharðindin á sínum tíma. 

„En þetta er nú kannski svona mini-móðuharðindi hjá okkur. Til allrar lukku,“ segir Svava. „En við vildum vara við þessu, því það eru náttúrulega ertandi agnir í þessu, það eru brennisteinssýrudropar og þetta eru smæstu agnirnar sem geta farið niður í lungun.“

Svava segir að brennisteinssýrudropar hljómi ekkert sérstaklega vel. „Þetta er líka það sem orsakar súrt regn sem verður til út af umbreyttu brennisteinsdíoxíði frá iðnaði. Það myndast þessir dropar við efnahvörf í andrúmsloftinu, þetta fellur sem súrt regn og veldur tæringu á málmum, styttum og öðru slíku. Það gæti verið að gerast í einhverju mæli hér.“

Er þetta eitthvað sem má búast við næstu daga? „Það er mjög erfitt að segja til um það. En okkur sýnist að svifrykstölurnar séu á leiðinni niður þannig að vonandi er þetta bara að fjúka út í veður og vind og við losnum við þetta, alla vegana að þessu sinni.“