Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sex ára barn mikið slasað eftir fall úr hoppukastalanum

02.07.2021 - 12:03
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Sex ára barn liggur mikið slasað á Landspítalanum eftir hátt fall úr hoppukastalanum sem tókst á loft á Akureyri í gær. Rannsókn lögreglunnar á Akureyri er hafin á málinu. Sjö börn voru flutt á sjúkrahúsið á Akureyri eftir slysið með minniháttar áverka, en eitt missti meðvitund.

Lögreglan á Akureyri rannsakar málið en samkvæmt upplýsingum þaðan er rannsóknin bara rétt að byrja, en allt verður rannsakað sem hægt er að rannsaka, segir Kristján Kristjánsson yfirlögregluþjónn í samtali við RÚV. Allt kapp verði lagt á til að upplýsa hvernig slysið bar að höndum, annars sé lítið nýtt að frétta. Það þarf að safna upplýsingum, taka skýrslur og viðtöl af sjónarvottum. 

Lögreglan hefur engar upplýsingar um líðan barnanna, en sjö voru flutt á sjúkrahúsið á Akureyri eftir slysið með minniháttar áverka. Eitt barn missti meðvitund og var það flutt með sjúkraflugi á Landspítalann í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg eru tölur um fjölda barna sem voru í kastalanum þegar hann losnaði nokkuð á reiki, fyrst var sagt að þau hefðu verið 108 en samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg voru þau eitthvað færri, á milli 60 og 70.