Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir þingforseta ekki hafa umboð til að banna heimsókn

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Silfrið
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir að henni hafi ekki verið formlega meinað að heimsækja Rússland. For­seti rúss­neska þjóð­þingsins vill að það verði gert vegna skýrslu hennar um stöðu Krím­tatara og al­var­leg mann­réttinda­brot á Krím­skaga.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir segir í samtali við fréttastofu staðreyndin sé sú að Vyacheslav Volodin, forseti Dúmunnar, hafi sagt við þarlendan fréttamiðil að hann vilji fara fram á það við Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, að meina henni inngöngu í landið.

Vonar að þetta verði ekki niðurstaðan

Hún segir að Rússar hafi áður sett stein í götu Evrópuráðsþingmanna en aðeins einu sinni stöðvað heimsókn. Þeim beri þó skylda til að taka á móti þingmönnum, en Þórhildur Sunna vonast til að ekkert verði úr hótun Rússa. 

„Það er bara að bíða og sjá hvort þetta verði formlega niðurstaðan. Ég vona auðvitað ekki. Þeim ber auðvitað lagaleg skylda til að vinna með skýrsluhöfundum Evrópuráðsþingsins að þeim verkefnum sem Evrópuráðsþingið felur þeim.“  

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis sagði á fundi með forseta Dúmunnar í júnílok að rétt væri að beina athugasemdum að Evrópuráðsþinginu sjálfu en ekki skýrsluhöfundi.

Þórhildur segir gott að forsetarnir hafi átt það samtal og fagnar því að Steingrímur hafi staðið með mannréttindabaráttu þingmanna.

„Skýrslan og innihald hennar orðin að ályktun Evrópuráðsþingsins sem slíks og hættir að tilheyra mér að einhverju marki að öðru en því að ég var flutningsmaður þessarar skýrslu og þessarar ályktunar.“

Ekki í formlegu ferli

Þórhildur segir yfirstjórn Evrópuráðsþingsins meðvitaða um ummæli Volodins. Þó hafi ekkert formlegt gerst í málinu.  

„Forseti Dúmunnar hefur sem slíkur ekkert umboð til þess að banna mér að fara til Rússlands. Ég hugsa að það sé ekki nema það verði formlega einhver viðbrögð við þessari kröfu þingforsetans sem Evrópuráðið bregst við.“ 

Þórhildur segir Rússa ekki hafa gert athugasemdir við skýrsluna meðan hún var í fagmati innan jafnréttisnefndar þingsins. Þeir hafi látið látið hjá líða að svara alvarlegustu ásakanir skýrslunnar varðandi mannshvörf, pyntingar og ofsóknir á hendur krímverskra Tatara.

Þess í stað hafi þeir bent á afmarkaða þætti henni sem hún segir vera venjulega afvegaleiðingu frá kjarna máls.

Að sögn Þórhildar hafa Rússar áður hótað að meina henni inngöngu, það hafi verið í sambandi við skýrslu sem hún er að vinna varðandi stöðu pólítískra fanga í landinu. Þó hafi sú hugmynd ekki komið frá jafn háttsettum manni og forseta Dúmunnar. 

Hún kveðst þó vonast til að hugmynd forseta Dúmunnar nú sé bara í nösunum á honum og að hún komist í vettvangsferð til Rússlands í haust eins og til stendur. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV