Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Milljarður nægir til að tryggja menningarstarfsemi

Mynd: Norðurlandaráð / Norðurlandaráð

Milljarður nægir til að tryggja menningarstarfsemi

02.07.2021 - 08:52

Höfundar

Fjárframlög til mennta- og menningarmála á Norðurlöndunum verða skorin niður um tæpan fimmtung á næstu árum. Formaður Norræna félagsins vonast til að ekki verði af því og segir tiltölulega litla fjármuni þurfa til að tryggja menningarstarfsemi á Norðurlöndum og óbreyttan rekstur Norræna hússins í Reykjavík áfram.

Hrannar Björn Arnarsson, formaður Norræna félagsins, var í viðtali á Morgunvakt rásar eitt og segir framlagið hafi dregist saman undanfarinn aldarfjórðung samanborðið við vöxt þjóðarframleiðslu.

Það sé tuttugu milljarðar nú en ætti að vera þrjátíu og sjö og hlutur Íslands sé tiltölulega lítill. Stefnumörkun ráðherranefndarinnar um að gera Norðurlöndin að sjálfbærasta og samþættasta svæði jarðar kostar nokkra fjármuni.

Hrannar segir ætlunina að sækja þá í umfangsmestu anga samstarfsins sem eru menningar og menntamál. Málaflokkurinn hafi þó skilað miklum ávinningi fyrir löndin, bæði inn á við og út á við. 

Hann segir rúman milljarð íslenskra króna duga til að fjármagna nýja framtíðarsýn ráðherraráðsins um sjálfbærni og samþættingu Norðurlandanna og til að koma í veg fyrir niðurskurð í mennta- og menningarmálum. 

„Og í rauninni niðurskurðurinn í Norræna húsinu sem framundan er meiri en mögulega aukin framlög Íslands, ef þessum peningum væri bætt inn í fjárlögin, þannig að Ísland kæmi út í plús ef að yrði farin yrði sú leið.“

Hrannar kallar eftir því Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlandanna, berjist fyrir því að tryggja fjármagn í málaflokkinn. 

Forstjóri Norræna hússins í Reykjavík lýsti nýverið þungum áhyggjum vegna áforma Norrænu ráðherranefndarinnar um að skera niður framlög til menningar. Það þýði um 26,6% niðurskurð til hússins næstu fjögur ár. Forseti Norðurlandaráðs tók í sama streng.

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Þungar áhyggjur af niðurskurði til menningarmála