Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Mikilvægast að njóta en ekki þjóta

02.07.2021 - 10:21
Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV
Mikill erill hefur verið hjá björgunarsveitum að undanförnu víða um landið; á gosstöðvunum, á hálendinu og nú síðast á Norðurlandi. Þá eru einnig aðstæður á hálendinu erfiðari en oft áður á þessum árstíma. Hálendisvakt Landsbjargar verður formlega sett í dag en hún verður á þremur stöðum á hálendinu í sumar auk viðbragðsvaktar í Skaftafelli.

Aukið álag með breyttu loftslagi

Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna hjá Landsbjörg, mætti í viðtal á Morgunvakt Rásar eitt í morgun, í tilefni af Safe Travel-deginum sem haldið er upp á í dag og er liður í forvarna- og fræðsluátaki fyrir ferðamenn. Björgunarsveitir gætu þurft að búa sig undir aukið álag með breyttu loftslagi, að sögn Jónasar.  

„Ef þetta er raunin að loftslagið hjá okkur er að breytast, hvort sem að sumrin verða styttri, það verði meiri snjór á hálendinu eins og er nuna eða fleiri aurskriður, þá þurfum við auðvitað að undirbúa okkur fyrir það og vera klár með mannskap, búnað og færni til að takast á við það, “ segir Jónas. 

Mikilvægt að njóta í stað þess að þjóta

Nú þegar ein af stærstu ferðahelgum sumarsins er að ganga í garð vill Jónas minna ferðalanga á að hafa öryggismálin í lagi. Mikilvægast sé að kanna aðstæður, veðurspár og aka á skikkanlegum hraða. Þá minnir hann ferðamenn á mikilvægi þess að njóta í stað þess að þjóta.