Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hraun rennur aftur í Geldingadölum

02.07.2021 - 16:18
Gos byrjað aftur 2. júlí 2021.
 Mynd: Landhelgisgæslan - Aðsend mynd
Hraun er farið að flæða upp á yfirborð í Geldingadölum á ný. Fyrr í dag var engin glóð sýnileg í gosinu og þóttu það nokkur tíðindi.

Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir í samtali við fréttastofu að órói stígi nú upp hægt og rólega og glóð sé farin að koma upp í norðurhluta gígsins.

Lovísa segir að svo virðist sem þrýstingsfall hafi orðið í gosinu og þá taki nokkurn tíma að mynda næga orku til að koma kvikunni aftur upp á yfirborð. Ekki sé hægt að segja til um hvort þetta sé nýr taktur gossins.

Þegar hraun er ekki sýnilegt í gígnum er erfitt fyrir sérfræðinga að kortleggja hegðun þess. Veðurstofan fylgist þó með GPS-mælingum sem geta til að mynda sagt til um það hvort hraun sé farið að troða sér upp annars staðar.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir