Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Er hægt að kalla slík vinnubrögð annað en fúsk?“

Mynd með færslu
 Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir - RÚV
Fyrirhugað er að fyrsta til þriðja bekk Fossvogsskóla verði kennt í færanlegum stofum við skólann í haust. Hins vegar verður kennslu í fjórða til sjöunda bekk haldið áfram í Korpuskóla líkt og í vor. Formaður foreldraráðs er efins um að viðgerðum á húsnæði skólans ljúki fyrir haustið 2022 líkt og ætlunin er.

Ný skýrsla verkfræðistofunnar Eflu sýnir að ástand skólans er afar slæmt og að ráðast þurfi í viðamiklar og dýrar framkvæmdir. 

Karl Óskar Þráinsson, formaður foreldrafélagsins og fulltrúi í skólaráði, telur ólíklegt að eitt skólaár dugi til að færa Fossvogsskóla til nútímahorfs, hið minnsta þurfi tvö ár til.

Ekki megi setja svo strangar kröfur um nauman tímaramma að aftur verði skriplað á skötu eins og hann orðar það í samtali við fréttastofu.

Karl nefnir að ekki var lokið framkvæmdir við suðurhluta aðalbyggingar skólans og því hafi vatn átt greiða leið inn. „Það þarf að gera við rakaskemmdir ári eftir að nýframkvæmd lauk, er hægt að kalla það annað en fúsk?“ 

 

Karl segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með aðkomu Heilbrigðiseftirlitsins að  málefnum skólans.

„Það hefur aldrei staðið með börnunum í þessu máli. Þau hafa staðið í gegnum þykkt og þunnt á bakvið eigendur húsanna þegar þeir hafa sagt
að það sé ekkert vandamál til staðar.“ 

 

Hann segir marga foreldra hafa reynt að leita annarra leiða varðandi skólagöngu barna sinna, til að mynda með því leita hófanna í öðrum skólum í hverfinu. Þar sé allt orðið fullt og því fátt um lausnir. 

 

Karl segist þó bjartsýnn að nú heppnist að koma húsnæðinu í lag. „Það er allt undir. Bæði heilsa og skólaganga barnanna okkar og trúverðugleiki borgarinnar í þeim verkefnum sem þau eiga framundan í svipuðum málum.“

Fréttin var uppfærð klukkan 15:26.