Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Eldgosið ekki dautt úr öllum æðum

Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist, Ell / RÚV
Ekki er ástæða til að afskrifa eldgosið á Reykjanesskaga. Órói í Fagradalsfjalli mælist nú svipaður og í gær eftir að hafa mælst nær enginn frá því í nótt fram yfir hádegi. Prófessor í eldfjallafræði telur líklegra að gos haldi áfram en að því sé lokið. Þetta eldgos sé hins vegar ólíkindatól.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist, Ell - RÚV
Rétt eftir hádegi 2. júlí sást bara örlítill reykur koma upp úr gígnum.

Yndislegt veðrið í dag dró eflaust marga að gosstöðvunum og hægt var að borða nesti í rólegheitunum en ekki eins og í vetrarveðrinu fyrstu daga gossins. 

Ekki var neitt glóandi hraun sjáanlegt í Nátthaga um hádegið í dag. Hraunbreiðan þar er orðin umfangsmikil og rauk úr henni sums staðar brennisteinsmengun. Við minni dalsins þar sem varnargarðurinn er þá er hrauntotan komin alveg að garðinum.

Í hádeginu í dag var eins og slokknað hefði á gígnum, engin kvika sást úr þyrlum sem flugu yfir. Hrun varð í   gígnum í nótt.  

„Hún kom í kjölfarið á svolítið öflugri gusu út úr gígnum sem að byrjað í gærkvöldi einhvern tíma rétt eftir tíu,“ segir Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands,  „það komu mjög skemmtileg yfirborðsflæði þarna niður gíginn og þetta var mikið sjónarspil í gærkvöldi. Og svo stigu ansi miklir reykjarmekkir upp af gígnum um fjögurleytið. Þá var greinilegt að það var að hrynja inn í hann og þá kom einhver kvika upp þá líka.“

Óróamælar á Fagradalsfjalli greindu svo nær engan óróa til klukkan þrjú í dag. 

„Svo erum við að fylgjast með óróanum og óróinn er kominn upp aftur.“

Um þetta leyti sást kvika aftur í gígnum. Þorvaldi þykir líklegra að það sé smá hlé á gosinu en að því sé lokið. 

„Í augnablikinu finnst mér það líklegra vegna þess að þessi aðdragandi er dálítið hraður. Það er frekar óvenjulegt að gos endi þannig. Þau svona yfirleitt deyja út í rólegheitunum. En maður veit svo sem aldrei. Þetta gos er ólíkindatól þannig að það getur vel verið að það taki upp á að enda allt öðru vísi heldur en önnur gos.“

Hann segir óróann benda til að kvika sé undir og að ef hún nái að búa um sig gæti allt eins verið að hún komi upp á yfirborðið með frekar miklum látum. Haldi hraunflæði áfram fer það yfir varnargarðinn í Nátthaga, segir hann. Neðar í gígnum er önnur rás og segir Þorvaldur að vel geti verið að hún sé enn að pumpa hrauni niður í Nátthaga, Meradali og aðra hluta hraunsins. 

„Við verðum bara að fylgjast með þessu næsta sólarhringinn. Og ef að hraunið heldur áfram að stækka þá er náttúrulega ennþá verið að dæla kviku inn í hraunið en ef að virknin hættir í hrauninu þá náttúrulega er líklegra að farið sé að draga úr gosinu og jafnvel að það stöðvist.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Þorvaldur Þórðarson.