Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þorpið afhenti íbúðir

Mynd: RÚV / RÚV
Biðröð myndaðist utan við nýtt fjölbýlishús í Gufunesi í Reykjavík dag þar sem 45 íbúðakaupendur fengu lykla afhenta. Allir voru þeir að kaupa fyrstu íbúð sína. Félagsmálaráðherra afhenti lyklana að fyrstu íbúðinni og síðan fengu nýir eigendur sína lykla hver af öðrum. Þorpið vistfélag byggði íbúðirnar, en alls stendur til að byggja 137 íbúðir. 

Íbúðirnar eru í þremur stærðum, staðlaðar og á föstu verði. Tveggja herbergja íbúð kostaði 27,1 milljón, þriggja herbergja 31,6 og fjögurra herbergja íbúð kostaði 36,5 milljónir. Verkefnið er hluti af átaki Reykjavíkurborgar um hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur, og fellur undir hlutdeildarlánaleið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem þýðir að kaupandi þarf að eiga 5% af kaupverði í útborgun. 

Nýju íbúðaeigendurnir voru spenntir og sumir meira að segja svo spenntir að þeir voru mættir með búslóðina og tilbúnir að flytja inn. Þeirra á meðal voru þau Karitas Sól Jónsdóttir og Magnús Kári Einarsson með ónefndan Magnússon fimm vikna.

Er þetta ykkar fyrsta íbúð?

„Fyrsta íbúð, fyrstu kaup,“ sögðu Karitas og Magnús sem voru spennt fyrir því að flytja inn. Karitas og Magnús sögðust ekki hafa nýtt hlutdeildarlán og sögðu staðsetningu íbúðarinnar dásamlega. Íbúðin væri björt og falleg og að ungum syni þeirra komi til með að líða vel á nýja heimilinu.

Ungi maðurinn mótmælti í það minnsta mótmælti ekki þegar foreldrarnir sýndu honum nýja herbergið hans. Jóel Einar Halldórsson nágranni þeirra á sömu hæð var heldur ekkert að tvínóna við hlutina heldur hóf strax innflutninginn, enda leist honum vel á.

Jóel sagðist ekki geta verið ánægðari með sína fyrstu íbúð. Hann hafði sjálfur ekki nýtt sér hlutdeildarlánið en sagði lausnina frábæra. „Þetta er frábær lausn fyrir fyrstu kaupendur og hjálpar mörgu fólki að komast af leigumarkaði.“

Félagsmálaráðherra sér fyrir sér fleiri verkefni á borð við þetta.

„Ég sé fyrir mér að það muni vera fleiri verkefni eins og þetta sem muni fara af stað og við vitum þegar af því að það eru fjöldi verktaka allt í kringum landið sem eru annaðhvort í startholunum eða komnir af stað,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra.

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV