Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Sýnatöku þörf finni bólusettir fyrir COVID einkennum

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RUV
Fullbólusettu fólki með einkenni sem gætu bent til COVID-19 smits ber að fara í sýnatöku svo fljótt sem verða má. Sömuleiðis skal halda sig heima, ekki fara til vinnu eða skóla og fara heim verði einkenna vart þar.

Ekki skal snúa aftur til vinnu eða skóla nema í samráði við yfirmann, reynist sýni neikvætt og ekki fyrr en einkenni eru liðin hjá. Þetta kemur fram í uppfærðum leiðbeiningum sóttvarnalæknis um sóttvarnir og ákveðnar undanþágur þeirra sem fullbólusett eru við COVID-19.

Ekki er gert ráð fyrir því frískt bólusett fólk þurfi að vera í sóttkví með smituðu heimilisfólki, það á einnig við um ferðamenn. Smitrakningarteymi getur ákvarðað um sóttkví fyrir bólusetta, sé samgangur við smitaða veruleg og samfellt.

Fólki er heimilt að beita 14 daga smitgát hafi það verið í minni háttar nánd við smitaða á ferðalagi. Það þýðir að fylgjast þarf vel með mögulegum einkennum og láta eiga sig að umgangast fólk sem viðkvæmt getur talist.

Full virkni bólusetningar telst hafa náðst tveimur vikum eftir síðari bólusetningu með öllum efnum nema Janssen sem útheimtir aðeins einn skammt. Sömu reglur gilda um þau sem hafa fengið einn skammt og gilda um óbólusetta.