Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikil samþjöppun á íslenskum bókamarkaði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Mikil samþjöppun á íslenskum bókamarkaði

01.07.2021 - 16:53

Höfundar

Samþjöppun er mikil á íslenskum bókamarkaði og útgáfa og smásala hljóðbóka er í miklum vexti. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu, Markaðsgreining á bókamarkaði, sem Samkeppniseftirlitið var að senda frá sér.

Markaðir fyrir útgáfu og smásölu hljóðbóka hafa verið í miklum vexti undanfarið, að því er segir í skýrslunni. Þannig þrefaldaðist veltan á útgáfumarkaðnum á milli áranna 2018 og 2019, og veltan á smásölumarkaði óx á sama tíma um 170%. Stærstan hluta þessarar aukningar rekja skýrsluhöfundar til innkomu Storytel, sem er með um 80-85% hlutdeild í útgáfu hljóðbóka og 95-100% hlutdeild í smásölu hljóðbóka. Á sama tíma dró lítilega úr heildsölu og útgáfu prentaðra bóka en heildarveltan á þeim markaði var um sjöföld á við útgáfu hljóðbóka.

Prentaðar bækur og hljóðbækur fyrir mismunandi markaði

Í skýrslunni kemur fram að á undanförnum árum hafi þróun á mörkuðum fyrir bækur verið sú að vægi hljóðbóka og rafbóka hefur aukist. Samkeppniseftirlitið lét framkvæma könnun á meðal neytenda í október 2020 til að leggja frekara mat á staðgöngu á milli hljóðbóka og prentaðra bóka meðal neytenda. 

Könnunin leiddi í ljós að vísbendingar séu um að hljóðbækur og prentaðar bækur myndi sérstaka markaði. Þannig bentu niðurstöður hennar til þess að hljóðbækur séu keyptar í öðrum tilgangi en prentaðar bækur, hljóð- og prentaðar bækur uppfylli mismunandi þarfir neytenda og séu notaðar við mismunandi aðstæður.

Prentaðar bækur vinsælar til gjafa en hljóðbækur hentugar

Eitt af því sem greining Samkeppniseftirlitsins leiddi í ljós var að prentaðar bækur virðast vera mun vinsælli til gjafa en hljóðbækur. Ríflega þriðjungur neytenda nefnir gjafakaup sem meginástæðu fyrir kaupum á prentuðum bókum en það hlutfall er einungis eitt prósent í tilviki hljóðbóka. Hljóðbækur henta aftur á móti neytendum vel, ef marka má niðurstöðurnar því tæplega 60% neytenda nefndu hentugleika sem meginástæðu fyrir kaupum á hljóðbókum.

Samþjöppun einkennir íslenska bókamarkað

Markaðir hér á landi fyrir prentaðar bækur einkennast af því að eitt fyrirtæki er með áberandi sterkasta stöðu, og jafnvel með margfalda markaðshlutdeild á við keppinauta sína. Í útgáfu prentaðra bóka er Forlagið stærst, með um 35-40% markaðshlutdeild miðað við veltu ársins 2019  sem er þrefalt meira en Bjartur & Veröld sem kemur þar á eftir. Á markaði fyrir smásölu prentaðra bóka er Penninn sterkasti aðilinn með 50-55% markaðshlutdeild sem er rúmlega tvöföld á við hlutdeild Haga sem koma þar á eftir með 10-15% hlutdeild, að því er fram kemur í skýrslu Samkeppniseftirlitsins.

Tengdar fréttir

Menntamál

Íslensk bókasöfn lána aðallega út hljóðbækur á ensku

Menningarefni

Bók er bók, er hljóðbók, er rafbók

Bókmenntir

Hljóðbókin er sigurvegarinn