Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kistur biskupa opnaðar - beinin varpa ljósi á margt

Mynd: RÚV - Hjalti Haraldsson / RÚV
Meira en 250 ára gömul bein, hár og aðrar jarðneskar leifar lágvaxinnar biskupsfrúar voru tekin upp úr lítilli kistu í Þjóðminjasafninu í dag. Kistur fimm biskupa, biskupsfrúa og nokkurra afkomenda bíða þess nú að vera greind með aðferðum mannabeinafræði þannig að hægt sé að varpa ljósi á heilsu og þjóðfélagsbreytingar þeirra tíma.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hjalti Haraldsson - RÚV
Freyja Hlíðkvist Ó. Sesseljudóttir og Joe Wallace Walser skoða beinin.

Grafnar upp á sjötta áratugnum

Árin 1954 til 58 var mikill fornleifauppgröftur í Skálholti og voru meðal annars grafnar upp líkkistur biskupa, biskupsfrúa og barnabarna. Sá elsti lést 1697. Beinin voru flutt til Reykjavíkur og rannsökuð. Litlar trékistur voru þá smíðaðar undir jarðnesku leifarnar og 1963 voru þær svo fluttar í Skálholt í grafhvelfingu undir nýrri Skálholtskirkju og fyrir settur stór legsteinn. Ósvaldur Knudsen kvikmyndagerðarmaður gerði heimildamynd um uppgröftinn.

Kisturnar settar í „sóttkví“

Kisturnar voru svo fluttar þann 8. júní í húsnæði Þjóðminjasafnsins í Hafnarfirði. Freyja Hlíðkvist Ó. Sesseljudóttir sérfræðingur í munasafni Þjóðminjasafnsins segir að þegar lífrænt efni komi inn á safnið fari það svokallaða einangrun í smá tíma.  Þannig sé komið í veg fyrir að eitthvað kvikt berist inn eða mygla.  

Guðríður lést 1766

Ein kistan var opnuð í dag. Það eru jarðneskar leifar Guðríðar Gísladóttur biskupsfrúar sem gift var Finni Jónssyni biskupi  og barnabörn hennar. Guðríður lést 1766, 17 árum á undan Skaftáreldum. 

Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti var viðstaddur og fór með bæn eftir Hallgrím Pétursson áður en lokið var tekið af kistunni.

Tækninni hefur fleygt fram síðan á sjötta áratugnum og því hægt að nota aðrar aðferðir til að rannsaka beinin en þá.

Rannsaka áhrif félagslegrar stöðu og heilsufars

Joe Wallace Walser sérfræðingu í mannabeinasafni Þjóðminjasafnsins fer fyrir rannsókninni. Hann varði nýlega doktorsritgerð sína um áhrif eldgosa á heilsufar Íslendinga gegnum aldirnar. 

„Við reynum að leita svara við spurningum um félagslega stöðu og heilsufar í tengslum við þær breytingar sem gengu yfir á þeim tíma sem fólkið var uppi,“ segir hann, „talið er að vannæring hafi verið útbreidd á þessum tíma en við erum um leið að skoða það sem við teljum vera efri stétt eða fólk í hærri stöðu, sem þýðir að það gæti hafa búið við betra mataræði en almennt tíðkaðist.“

Spanskgræna litar tennur og varðveitir líkamsvefi

Í kistunni voru meðal annars kjálkabein og tennur. Tennurnar eru grænleitar. Ástæðan er sú að Guðríður biskupsfrú mun líklega hafa verið grafin með skart úr kopar og því myndast spanskgræna á tönnunum. Koparinn hefur líka séð til þess að líkamsvefur hefur varðveist betur en ella og er því skinnið nokkuð heillegt. 

Gluggar lokaðir og slökkt á loftræstingu vegna eldgossins

Bera þarf grímu og hanska þegar jarðnesku leifarnar eru handleiknar. Það var nokkuð þrúgandi í dag því hitinn var mikill. Eldgosið á Reykjanesskaga er ekki langt í burtu og gæta þarf varúðar vegna mengunarinnar sem berst þaðan. 

„Og þegar svo er að þá rýkur brennisteinsmengunin upp eins og fólk veit. Og gripir, forngripir, eru jafnvel viðkvæmari en fólk gagnvart þessu þannig að við viljum fá sem minnst af gosefnum hérna inn í húsið og þess vegna höldum við öllum gluggum lokuðum þegar svona er,“ segir Freyja. 

Styðjum við vísindin segir vígslubiskup

Kristján vígslubiskup er ánægður með hvernig staðið hefur verið að þessu. 

„Þetta er full virðing í kringum þessar jarðnesku leifar. Og einn þeirra [biskupa í kistunum] Þórður Þorláksson hann er talinn frumkvöðull vísinda og lista og af hverju ættum við þá ekki að styðja við vísindin með svona rannsóknum.“

Auk jarðneskra leifa Guðríðar og barnabarna hennar eru á Þjóðminjasafninu leifar biskupana Þórðar Þorlákssonar, Jóns Vidalíns, Jóns Árnasonar, Finns Jónssonar og Hannesar Finnssonar. Biskupsfrúrar sem vitað er með vissu eru Sigríður Vídalín, Guðríður og Þórunn Ólafsdóttir. Þá eru líklega leifar annarrar Guðríðar Gísladóttur eiginkonu Þórðar Þorlákssonar, sonar þeirra og föður Guðríðar, Gísla Magnússonar sýslumanns.  

Ætla má að að minnsta eitt ár sé þangað til að biskupar og föruneyti komist aftur heim í Skálholt. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hjalti Haraldsson - RÚV
Hluti jarðneskra leifa Guðríðar Gísladóttur sem lést 1766.