Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kátt í höllinni frá morgni til kvölds

Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Síðasti stóri bólusetningardagurinn var í Laugardalshöll var í dag. Það var létt stemning í höllinni, bæði meðan á bólusetningu stóð og að henni lokinni. Vel á tíunda þúsund mættu í Laugardalshöll í dag, þennan síðasta stóra bólusetningardag, og var hálfgerð karnivalstemning í höllinni.

„Þetta var alveg rosalegur endasprettur í dag á þessari stóru viku. Við lentum í því að Astra kláraðist hjá okkur og þurftum að bregða á það ráð að blanda upp í Pfizer,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Tveir Pfizer dagar í framundan

Þótt blöndun þessara bóluefna veiti góða vernd voru örfáir sem kusu að bíða eftir næstu sendingu af AstraZeneca. Næstu tvo þriðjudaga verða gefnir síðari skammtar af Pfizer, mögulega þarf að bæta við litlum Astra Zeneca degi og þá hafa einhverjir skráð sig fyrir bóluefni Janssen og verða þeir boðaðir í bólusetningu. Þeir sem ekki eru enn bólusettir geta skráð sig í gegnum heilsugæslu eða netspjall á Heilsuveru. 13. júlí hefjast svo sumarleyfi og standa til 17. ágúst, en ekki er búið að ákveða með hvaða hætti bólusetning fer fram eftir það.

Þau tímamót eru hins vegar að verða í faraldrinum að bólusetningarmiðstöðinni í Laugardalshöll verður brátt lokað. „Já ég geri ráð fyrir því. Þetta er búið að vera notalegt að vera hérna. Alveg dásamlegt og staðarhaldarar eiga hrós skilið, hafa þjónustað okkur mjög vel og bara allir þannig að þetta er búið að ganga mjög vel hér,“ segir Ragnheiður Ósk.

Gleði fram á kvöld

Þótt þorri þjóðarinnar sé bólusettur er veiran ekki horfin og greindust tveir í vikunni. Smitin tengjast og var annar hinna smituðu bólusettur.  Sem fyrr er fólki með einkenni ráðlagt að fara strax í sýnatöku, jafnvel þótt það sé fullbólusett, enda getur það bæði smitast og borið með sér smit, þótt ólíklegt sé bólusettir verði alvarlega veikir.

Þótt síðustu sprauturnar hafi verið gefnar á fimmta tímanum var starfsfólkið sem hefur staðið vaktina í Laugardalshöll undanfarnar vikur og mánuði ekki á því að yfirgefa höllina strax. Þau komu saman síðdegis til að fagna góðum árangri í bólusetningum og var búið að boða leynigest sem reyndist vera poppstjarnan Páll Óskar.

Myndir af gleðinni má sjá í spilaranum hér að ofan.